Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Fimmtudaginn 23. nóvember 1995, kl. 19:14:25 (1280)

1995-11-23 19:14:25# 120. lþ. 40.7 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur


[19:14]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru bara örfá atriði sem ég ætla að reyna að koma að í andsvari því að ég veit ekki hvort ég mundi mikið breyta skoðunum hv. þm. á þessum málum þó ég reyndi að svara ítarlega. Hann hefur sett sínar skoðanir mjög ítarlega fram, bæði í sínu máli áðan og fyrr eins og ég nefndi, en kallar það hundalógík að taka tillit til þeirra aðstæðna sem þarna ríkja. Það verður að vera hans skoðun og ég ítreka það sem kom fram í mínu máli áðan að við höfum fallist á þetta vegna þess, ekki af því bara, heldur vegna þess að við teljum að það sé ásættanleg staða sem næst. Það er auðvitað aldrei gaman að þurfa að sætta sig við mengun og að það verði mengun. En við sættum okkur við þetta fyrirtæki eins og það er og að sömu kertækni verði beitt og þeir nota nú. Rannsóknir og mælingar sem gerðar hafa verið hafa sýnt að við getum, innan okkar reglugerða og staðla og miðað við þær kröfur sem við gerum sjálfir, sætt okkur við þá tækni sem er miðað við að notuð verði, þ.e. sama kertækni í hinum nýja hluta og hinum eldri. Og hvað varðar það að mengunarvarnareglugerðin sé e.t.v. ekki fullkomin smíð þá má sjálfsagt segja að það eru auðvitað alltaf að gerast breytingar í heiminum og viðhorf manna eru stöðugt að breytast. Við teljum að mengunarvarnareglugerðin fullnægi öllum þeim samningum og þeim skilyrðum sem við höfum undirgengist og nú þegar gert samkomulag um við aðrar þjóðir þannig að reglugerðin sé að því leytinu til fullkomin. Ef þessar kröfur okkar í starfsleyfinu uppfylla skilyrði reglugerðarinnar þá tel ég líka að það sé ásættanlegt. Þetta er því aðeins ítrekun á því sem hafði áður komið fram í máli mínu, virðulegur forseti, sem ég vil láta koma fram hér.