Verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 15:11:49 (1286)

1995-11-27 15:11:49# 120. lþ. 41.5 fundur 166. mál: #A verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# þál., ÓRG
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[15:11]

Ólafur Ragnar Grímsson:

Virðulegi forseti. Eins og umræðan þróaðist hér í síðustu viku tel ég æskilegt að hæstv. samgrh. og hæstv. utanrrh. og jafnframt hæstv. fjmrh. séu viðstaddir þessa umræðu. Þessari tillögu er beint til hæstv. fjmrh., þar sem óskað er eftir því að hann taki málið að sér og það er nauðsynlegt að heyra afstöðu þeirra tveggja ráðherra sem aðallega hafa fjallað um þetta, þ.e. hæstv. utanrrh. og hæstv. samgrh., til málsins. Ég stóð þess vegna í þeirri trú, hæstv. forseti, að tryggt yrði að þessir þrír viðkomandi ráðherrar yrðu hér þegar málið kæmi til framhaldsumræðu og ítreka þá ósk okkar.

Einkum og sér í lagi er nauðsynlegt að hæstv. samgrh. og hæstv. fjmrh. séu viðstaddir umræðuna í ljósi yfirlýsingar hæstv. samgrh. í síðustu viku.

Í tilefni af þessari tillögu og þeirri umræðu sem fram fór í síðustu viku er auðvitað alveg nauðsynlegt að fara nokkrum orðum um það hver er grundvallarvandinn varðandi atvinnurekstur í flugstöðinni. Grundvallarvandinn felst í eðli þeirrar byggingar sem þar var reist og í fjármögnun hennar. Ég átti sæti í nefnd á árunum 1980--1983 sem fjallaði um byggingu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli. Í þeirri nefnd lýsti ég þeirri afstöðu að stefna ætti að því að byggja hliðstæða byggingu og væri á Kastrup-flugvelli, Heathrow-flugvelli, í Lúxemborg og nokkrum öðrum flugvöllum, með öðrum orðum byggingu sem væri kassi, kannski ekkert sérstaklega snjall frá fagurfræðilegu sjónarmiði en hentugur hvað það snertir að hægt væri að bæta við hann öðrum kössum eftir þörfum. Alþjóðlegur flugvöllur er ekki gefin stærð. Alþjóðlegur flugvöllur tekur sífeldum breytingum og það á sérstaklega við um flugstöðvarnar. Það hefur stundum verið sagt um Heathrow-flugvöll í Bretlandi og flugstöðvarnar þar að Heathrow sé eina byggingarsvæðið í Bretlandi sem hafi sérstakan flugvöll. Það sem liggur á bak við þessa yfirlýsingu er að breytingarnar eru svo örar og miklar að sveigjanleiki þurfi að vera fyrir hendi. Þetta var sú afstaða sem Alþb. lýsti í upphafi síðasta áratugar. En því miður var það þannig að Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl. höfnuðu þessari afstöðu og tóku höndum saman um það að reisa í samvinnu við Bandaríkjamenn þá byggingu sem nú stendur. Það var augljóst frá upphafi að þessi bygging mundi fyrr eða síðar reynast alvarlegur flöskuháls fyrir framþróun þessara mála í landinu. Og það hefur nú komið á daginn.

[15:15]

Þessi tillaga snýst fyrst og fremst um atvinnurekstur í flugstöðvarbyggingunni. Hún tekur hins vegar ekkert á því meginvandamáli sem er að á meðan Flugleiðir haga sínum ferðum á þann veg að meginþunginn er á þremur klst. að morgni til og aðkoman í flugstöðina er með þeim hætti sem hún er nú og lítt er hægt að breyta, er útilokað að hægt sé að skapa svigrúm innan flugstöðvarbyggingarinnar fyrir mikinn fjölda farþega sem hafa tíma og tóm til að versla í byggingunni. Tvö sl. sumur hafa menn t.d. séð að þegar hinn mikli fjöldi ferðamanna streymir út úr landinu eða til landsins, á fáeinum klukkustundum sólarhringsins, myndast slíkar stíflur í byggingunni að útilokað er að greiða úr þeim. Afleiðingin er síðan sú að viðkomutími farþega á viðskiptasvæðinu í byggingunni er svo lítill að þeir hafa hvorki tíma, tóm né eru í hugarástandi sem hentugt er til verslunarferða. Þetta er grundvallarvandamálið og því verður ekki breytt nema Flugleiðir taki annaðhvort upp allt annars konar tímaáætlun í flugi sínu, sem manni skilst að sé mjög óhagkvæmt út frá viðskiptasjónarmiði fyrirtækisins, eða þá að allri aðkomu í byggingunni sé stórlega breytt með þeim kostnaði sem því tilheyrir. Vandinn liggur ekki í verslunarforminu eða þeim athöfnum sem eru uppi á efri hæðinni í byggingunni.

Hitt vandamálið er síðan fólgið í því að þau lán sem tekin voru til þess að standa undir feikilegum stofnkostnaði sem var í upphafi vegna þess í hvernig byggingu var farið, eru svo mikil að stór hluti teknanna, eða annarra ríkistekna, fer í að greiða af þeim. Þess vegna er það sem hæstv. samgrh. sagði hér í andsvari í síðustu viku alrangt, að ágreiningur í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar 1988--1991 hefði komið í veg fyrir að á þessum vanda væri tekið. Sérstaklega að eitthvert samkomulag hefði verið gert varðandi varaflugvöll annars vegar og rekstur þessarar byggingar hins vegar. Allt slíkt er auðvitað fáránlegt í eyrum þeirra sem til þekkja.

Hvernig á að taka á þessum fjárhagsvanda? Því verður að svara vegna þess að þessi lán voru tekin af íslenska ríkinu og þau ber að greiða. Ætli heildarupphæð skuldanna í dag sé ekki eitthvað í kringum 3 milljarðar eða svo. Ég ætlaði að spyrja hæstv. fjmrh. að því hér við umræðuna, eða hæstv. samgrh. En kannski geta aðrir svarað því. Meðan þessi skuldabyrði hvílir á flugstöðinni og meðan byggingin er í þeim búningi sem hún er í dag, hef ég því miður afar litla trú á því að það sé hægt að skapa varanlegan grundvöll undir verslunarstarfsemi í byggingunni, þannig að verslunarfyrirtæki sæki þangað inn. Það er vitað t.d. að bæði Póstur og sími og Landsbankinn borga leigu sem báðir aðilar telja óeðlilega háa. En þeir gera það vegna þess að þeir telja sig vera að styrkja starfsemina með ákveðnum hætti. Það er líka ljóst að sá varningur sem farþegar sækjast eftir að kaupa nú á flugstöðvum er af allt öðru tagi en sá varningur sem menn sóttust eftir að kaupa fyrir 10 eða 20 árum.

Ég hefði þess vegna talið eðlilegt að þeir tveir ágætu flm. þessa máls úr þingflokki Sjálfstfl. hefðu átt viðræður við hæstv. samgrh., hæstv. fjmrh. og hæstv. utanrrh., og þá sérstaklega hina tvo fyrrnefndu sem sitja í þingflokki Sjálfstfl., um það hvaða hugmyndir þeir hefðu í málinu áður en þeir fluttu tillöguna hér, svo við gætum hér á þingi tekið með raunhæfum hætti á þessum vandamálum. Því þetta er stórt og mikið vandamál. Að mínum dómi er verið að gefa falskar vonir um lausn þessa vandamáls með því að benda bara á rekstrarformið og segja að með einfaldri breytingu sé hægt að leysa þau vandamál sem við blasa.

Virðulegi forseti. Tími minn er útrunninn og ég mun ljúka ræðu minni. En ég hlýt að lokum að gagnrýna það að forseti heldur þessum umræðum áfram án þess að þeir ráðherrar sem að málinu koma séu viðstaddir og án þess að sá ráðherra sem blandaði sér í umræðuna hér í síðustu viku sé viðstaddur, sérstaklega í ljósi þess að hann var fyrir fáeinum mínútum að mæla hér fyrir máli.