Verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 15:22:32 (1288)

1995-11-27 15:22:32# 120. lþ. 41.5 fundur 166. mál: #A verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# þál., KPál
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[15:22]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil ekki láta þessa umræðu hjá líða án þess að fá tækifæri til þess að hnykkja á örfáum atriðum sem komu reyndar sum fram í máli mínu við umræðuna fyrir nokkrum dögum. Það var nokkuð skondið að sú umræðu sem fór hér fram snerist ekki lengur um verslunarreksturinn í Leifsstöð, hún snerist um það hverjum slæm fjárhagsstaða Leifsstöðvar væri að kenna. Var horfið allt aftur til síðasta áratugar til að reyna finna skýringu á því. Að sjálfsögðu er öllum ljóst að vandi Leifsstöðvar er mikill og áform og aðgerðir sem hafa verið uppi um að hækka ýmsan þjónustutengdan kostnað í Leifsstöð hafa orðið til að fæla frá húsinu ýmsa rekstraraðila sem gjarnan hefðu viljað vera þar inni. Fjárhagsstaðan blandast þannig inn í það hvernig hægt er að nýta húsið betur og ná upp fjölbreyttari rekstri en nú er. Við vitum að flugfélög eins og SAS, Grænlandsflug og fleiri aðilar hafa hreinlega farið úr þessu húsi vegna mjög hárrar húsaleigu. Ég ætla ekki að telja upp fleiri, það gerði ég síðast. Margir aðrir aðilar hefðu gjarnan viljað reka sína starfssemi þaðan, en hafa ekki treyst sér til þess af sömu ástæðum. Kannski eru ýmsar ástæður fyrir því að svona fór. Að margra mati er það þó kannski fyrst og fremst vegna þess að stjórnunin hefur verið ríkistengd, það eru beinar tengingar til ráðherra og jafnvel margra ráðuneyta og nauðsynlegar breytingar hafa ekki náð fram að ganga vegna ósamkomulags og óskýrra reglna um það hverjir ráða í þessari stöð.

Það kom fram í umræðunni síðast að ýmis rekstur sem er starfræktur þarna í dag er á vegum ríkisins, t.d. fríhöfnin og Íslenskur markaður, sem er að vísu hlutafélag, en að meiri hluta til í eigu ríkisins. Ég minntist á það síðast að ég teldi að ástæðan fyrir því hversu erfiðlega gengi að ná eyrum stjórnvalda með það að leigan skiptir verulegu máli væri einmitt sú að þau fyrirtæki sem þarna eru rekin borga leigu sína til ríkisins, eru í eigu ríkisins eða eru nánast rekin af ríkisstarfsmönnum úr ráðuneytum. Þeir gera sér því kannski ekki beinlínis grein fyrir því hversu mikilvægt þetta er. Það er ein ástæðan fyrir því að ég tel nauðsynlegt að breyta fríhafnarrekstrinum í hlutafélag, þannig að þar komi að rekstri menn sem hafa vit á slíkum rekstri, umfram það sem gerist beinlínis í ráðuneytum. Mín hugmynd í þessari tillögugerð er t.d., eins og fram hefur komið, að fríhöfnin yrði hlutafélag í eigu ríkisins. Ekki hlutafélag sem yrði sett í hendurnar á einhverjum ákveðnum aðila úti í bæ, heldur yrðu það starfsmenn og aðrir aðilar sem vit hefðu á slíku, sem hefðu fyrst og fremst áhrif á það hvernig reksturinn þróaðist. Þannig tel ég að reksturinn mundi þróast á mun frjálslegri og skipulegri hátt í átt til þess að mæta þörfum viðskiptavinarins og í takt við tímann. Þarna vinnur sérlega áhugasamt fólk sem hefur sýnt að það getur rekið svona stofnun með miklum glæsibrag og mér finnst að það eigi að gefa því fólki mun fleiri tækifæri en það hefur hingað til fengið. Ég veit að það hafa komið tillögur frá þeim aðilum sem þarna eru um það hvernig breyta mætti rekstrinum þannig að hann yrði frjálsari og auðveldari. Mér er kunnugt um að þær tillögur hafa ekki náð fram að ganga en eftir því sem ég best heyri frá starfsmönnum, þá er að margra mati nauðsynlegt að reyna að gera þetta frjálsara. Ég vil samt ítreka að þar á ég ekki við einhverja básavæðingu sem yrði í eigu margra aðila og án yfirstjórnar, heldur hlutafélag sem yrði í eigu ríkisins. Enda held ég að það sé með sambærilegum hætti sem fríverslunin er rekin á Kastrup. Þar er ríkið meirihlutaeigandi að hlutafélagi sem rekur verslun með áfengi og annað sem selt er í flugstöðinni og hugmynd mín er að þetta muni þróast á þennan hátt.

Að öðru leyti tel ég að menn geti síðan með ábyrgum hætti reynt að laga þessa tillögu að því sem best lýtur þörfum markaðarins og fólksins sem þarna starfar, þannig að verslunarrekstur í Leifsstöð geti blómstrað. Og þá er nauðsynlegt að taka allt með. Ég tel rétt, sem komið hefur fram hér, að vandamálið megi að sjálfsögðu rekja til erfiðrar fjárhagsstöðu Leifsstöðvar. En við það bætist líka að verslunarrekstur, annar en sá sem er í eigu ríkisins, hefur ekki getað þrifist þar með eðlilegum hætti.