Verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 15:29:28 (1289)

1995-11-27 15:29:28# 120. lþ. 41.5 fundur 166. mál: #A verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# þál., DSigf
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[15:29]

Drífa Sigfúsdóttir:

Herra forseti. Ég vona að virðulegur forseti virði mér það til vorkunnar að ég á dálítið erfitt með að átta mig á því sem hv. 10. þm. Reykn. sagði hér við þessar umræður og sumu af því sem fram kom í fyrri hluta þessarar umræðu. Það sama gildir um tillögu þá, sem hér er rædd. Ef ég mætti, með leyfi herra forseta, vitna í hana, þá stendur þar undir lokin: ,,... en jafnframt dragi hið opinbera sig út úr rekstri tollfrjálsra verslana þar.`` Ég á dálítið erfitt með að skilja þegar talað er um að ríkið eigi að eiga þessa verslun og starfsmenn fái að koma þar að, en jafnframt eigi ríkið að draga sig út úr þessum rekstri. Mér finnst vandrataður slíkur meðalvegur og varla finnanlegur. Ég tel ekki að flm. hafi tekist að færa rök fyrir því að skynsamlegt sé að samþykkja tillögu þeirra. A.m.k. dugðu þau ekki til að sannfæra mig.

Málið heyrir að sjálfsögðu undir utanrrh. og þar á það heima. Fyrst á að leysa vanda flugstöðvarinnar, síðan annarra sem þarna eru. Ég tel að þessi verslun sé ágætlega rekin og í það minnsta skilar hún ágætum arði því samkvæmt ríkisreikningi árið 1994 þá held ég að það sé nálægt 550 millj. Þarna er um verulega fjármuni að ræða þannig að ég held að þau rök sem hafa komið fram bæði nú og um daginn þegar málið var til fyrri umræðu eru ekki nægileg að mínu mati. Málið á að fara til þess ráðuneytis sem hefur verið að undirbúa það og vinna að því að leysa málið. Sérstaða og eðli fríhafnarinnar er slík að hún er ekki í samkeppni við verslanir innan lands heldur í samkeppni við fríhafnir erlendis. Það er allt annar handleggur og getur aldrei orðið um mismun að ræða gagnvart verslunarrekstri hér á landi.

Þar fyrir utan er margt annað sem hefur komið fram en ég ætla að ítreka að ég tel að það verði að hafa þann háttinn á í þessu máli að byrja á að leysa vanda flugstöðvarinnar og það þurfi einnig að skoða þetta mál með starfsmönnum og þeim sem þarna eru að vinna til þess að það ekki skapist frekari óöryggi um starf þeirra.