Verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 15:46:04 (1295)

1995-11-27 15:46:04# 120. lþ. 41.5 fundur 166. mál: #A verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# þál., JBH
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[15:46]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Aukist hafa nú heldur vandræði þeirra tillögumanna. Því hefur áður verið lýst að tveir hv. þm. Sjálfstfl. flytja ályktunartillögu um að skora á fjmrh. að fara að gera eitthvað við málefni ríkisstofnunar sem ekki heyrir undir fjmrh. Nú er komið á daginn að hv. tillögumönnum ber alls ekki lengur saman um hvað tillagan snýst. Í tillögugreininni sjálfri segir að ríkið eigi að draga sig út úr verslunarrekstri þarna, en annar tillögumaður, hv. þm. Kristján Pálsson segir að það sé alls ekki meiningin þannig að tillagan er bæði vitlaus að efni til og adresseruð á vitlaust heimilisfang og aukast nú heldur vandræði forseta hvað eigi að gera við slíkar tillögur. Það er t.d. alveg augljóst mál að þessi tillaga á ekki erindi í efh.- og viðskn. Hún á að fara til utanrmn. af því að þetta er á verksviði hæstv. utanrrh.

Aðalvandinn í sambandi við rekstur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar er uppsafnaður fortíðarvandi, fjárhagsvandi. Frá því hefur verið skýrt að gerðar hafa verið margar atrennur, ekki færri en fimm að því að leggja fram tillögur sem kalla engu að síður á samþykkt ríkisstjórnar til þess að leysa þennan vanda. Þær tillögur hafa verið fluttar. Þær voru í fyrsta lagi um það að fela fjmrh. að ganga frá skuldbreytingum því að lántökumálin heyra undir hann og draga þannig úr greiðslubyrði með því að lengja lán og fá hagstæðari kjör.

Í annan stað voru þetta tillögur sem tóku á flestum þáttum rekstrarins og voru um það að draga úr útgjöldum, að nýta betur húsnæðið sem þarna er til ráðstöfunar, að hækka gjaldskrár og gera kröfur um aukna húsaleigu af þeim sem stunda þarna rekstur, en breyta því í það form að húsaleigan væri hluti af nettóhagnaði. Tilgangurinn með þessum tillögum var að skila þeim 150 millj. kr. á ári í auknar tekjur sem þarf til þess að standa undir greiðslubyrðinni. Menn standa nefnilega gjarnan í þeirri trú að sá atvinnurekstur sem þarna er stundaður skili ekki nægum peningum til þess að standa undir greiðslubyrði af teknum lánum. Það er alger misskilningur. Í þessari starfsemi verða til gríðarlegir fjármunir og starfsmenn fríhafnarinnar munu vera að halda upp á það þessa helgi að þeir eru á þessum tíma, núna í nóvember búnir að skila sömu upphæð í brúttósölu og þeir náðu á öllu sl. ári. Með öðrum orðum, þeir munu skila meiri tekjum í ríkissjóð og þeir munu skila meiri tekjum samkvæmt lögum um bindingu tekjustofna eða ráðstöfun þessa fjár til annarra óskyldra aðila. Ef þeim væri frjálst að verja þessu fé þyrfti engar tillögur og engar ráðstafanir til þess að auka þarna tekjumyndum vegna þess að flugstöðin stendur undir sjálfri sér og öllum þessum lánum ein og sér.

Þegar ég segi: Það er ótímabært að flytja tillögu, jafnvel þótt hún væri á rétta adressu og tillögumönnum bæri saman um það um hvað hún væri fyrr en þessi mál hafa verið leyst, þá er ég að segja þetta: Það er frumkrafa til hæstv. ríkisstjórnar að hún nái niðurstöðu um lausn á fjárhagsvandanum. Menn fara ekki að slátra hænunni sem verpir gulleggjunum í fullkominni óvissu um það hvað tekur við. Það er staðreynd að ríkisreksturinn í fríhöfninni er sennilega einhver sá besti í landinu og hefur skilað auknum tekjum ár frá ári á undanförnum árum og stendur undir þessu öllu saman. Menn fara ekki að gera á því breytingar og taka á sig þá áhættu sem því er tengd, áhættu sem m.a. felur það í sér að menn verða þá að hafa heildstæðar tillögur um hvað eigi að taka við, hvernig eigi að standa að félagsstofnun, félagsmyndun, samningum við nýja aðila, leigukjörum o.s.frv. til þess að tryggja það að fjárhagsgrundvöllurinn bresti ekki algerlega. Þess vegna segi ég að það er algerlega ótímabært fyrr en hæstv. utanrrh. getur komið hér og skýrt frá því hvort hann hafi gert einhverjar breytingar eða yfirleitt flutt nokkrar tillögur eins og gert var fimm sinnum í fyrri ríkisstjórn og hvort honum gengur eitthvað betur að fá vandamálið sem er hæstv. samgrh. og setið hefur á þeim tillögum nú í fimm ár, til þess að sjá að sér. Það væri fullkomið ábyrgðarleysi að þessum vandamálum óleystum að vera með nokkurn tillöguflutning af þessu tagi vegna þess að það væri einfaldlega að taka þá áhættu að það fé sem menn þó hafa í hendi af þessum myndarlega og hagkvæma rekstri eins og hann er nú verði jafnvel hugsanlega ekki til ráðstöfunar.

Mikið meira er ekki um þetta mál að segja. Það er lágmarkskrafa að þeir sem eru að taka til hendinni og telja sig vera komna með einhverjar tillögur til lausnar hafi kynnt sér forsögu málsins, gert sér grein fyrir því að það eru fyrirliggjandi tillögur um þessa lausn og að þeir átti sig á því undir hvern í stjórnkerfinu þessi rekstur heyrir. Annað er ekki um þennan tillöguflutning að segja.