Verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 15:58:42 (1298)

1995-11-27 15:58:42# 120. lþ. 41.5 fundur 166. mál: #A verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# þál., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[15:58]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Það er til marks um virðingarleysi ráðherranna sjálfra fyrir hv. flm. og málefninu að enginn þeirra, ekki utanrrh., ekki fjmrh., ekki samgrh. sýna sig hér. Hv. þm. furðaði sig á því að ég sem fyrrv. utanrrh. hefði ekki flutt tillögur um að breyta reglum um verkaskiptingu í Stjórnarráðinu þannig að forræði yfir flugstöðinni færðist til samgrh. Merkilegt. Það hefur verið sammæli allra sem sameiginlega stóðu að gerð varnarsamningsins á sínum tíma undir forustu þáv. forsrh. og formanns Sjálfstfl., Bjarna Benediktssonar, að ein af forsendunum í þeim samningum væri að einn aðili í íslensku stjórnvaldi færi með öll samskiptin við varnarliðið. Flugvöllurinn er ekki bara farþegaflugvöllur á vegum Íslendinga heldur einnig varnarstöð. Það er skýringin á því hvers vegna þetta er svo.

En að loknu kalda stríði og í ljósi breytinga, þá var það nú svo að ég flutti tillögu í síðustu ríkisstjórn um að færa forræði flugstöðvarinnar yfir til samgrn. ef það mætti verða til þess að koma einhverju viti fyrir hæstv. samgrh. og að hann féllist á skynsamlegar tillögur um lausn þessa fjárhagsvanda. Þeirri tillögu var líka hafnað og sýnir þvergirðingsháttinn sem var alger í þessu máli. (Samgrh.: Hverra?)

[16:00]

Að því er varðar það að utanrrh. fari þarna með alræðisvald, þá er það að sjálfsögðu rangt. Ef svo væri, þá væri fyrir löngu búið að leysa þetta mál. Hann er að sjálfsögðu bundinn lögum og reglum um ráðstöfun þess fjár sem verður til í þessari starfsemi og rennur annars vegar í ríkissjóð og hins vegar til flugmálaáætlunar og Flugmálastjórnar, þannig að því fer fjarri að hér sé um að ræða alræðisvald. Þess vegna þurfti að flytja tillögur um það hvernig ætti að leysa þennan fjárhagsvanda og fá atbeina annarra til þess.

Loks er þess svo að geta að þegar þannig háttar til í íslensku stjórnkerfi að deilur eru uppi um tillögur sem fluttar hafa verið hvað eftir annað við ríkisstjórnarborð, þá varð niðurstaðan að sjálfsögðu sú að þessu máli var vísað til hæstv. þáv. forsrh., sem enn er forsrh. Og í raun og veru er þetta mál enn á hans borði.