Orka fallvatna

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 17:07:19 (1307)

1995-11-27 17:07:19# 120. lþ. 41.6 fundur 11. mál: #A orka fallvatna# frv., 12. mál: #A jarðhitaréttindi# frv., Flm. HG
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[17:07]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég hef fyrr á þingum ætíð glaðst yfir því þegar fram hefur komið vilji hjá handhöfum ríkisvaldsins um að móta stefnu um þessi þýðingarmiklu mál og reiða hana fram. Ég geri enga undantekningu á því nú. Ég er vissulega að vona að dropinn holi steininn í þessum efnum og við nálgumst þann tíma að við fáum eitthvað sem hönd er á festandi frá öðrum flokkum en Alþb. inn í þetta tillögusafn þannig að þingið geti tekist á um þá hluti ef ágreiningur er uppi.

Nú vænti ég þess, virðulegi forseti, að þarna verði ekki um neinn grundvallarágreining að ræða. Ég tel að hafi flokkarnir --- og þá á ég við flokkana sem lengst hafa verið á velli í landinu, fjórflokkana svokölluðu --- ekki skipt um skoðun í grundvallaratriðum frá t.d. þeim tíma sem dr. Bjarni Benediktsson flutti sínar tillögur inn í þingið 1945 eða Ólafur Jóhannesson sem reiddi fram frv. sem fylgdi greinargerð í hans nafni 1956, óttast ég ekki svo mjög að uppi sé stórfelldur ágreiningur varðandi grundvöll málsins. En auðvitað á eftir að koma í ljós hvert efnið verður. Hæstv. iðnrh. hafði uppi mjög skýrt mál af sinni hálfu og vonaðist til að fá tillögur starfshópsins í hendur fyrir miðjan desember og geta lagt fram stjfrv. um málið strax og þing kemur saman eftir áramót. Hæstv. ráðherra talaði um að málið væri gríðarlega mikilvægt og öllu kraftmeiri lýsingarorð en hæstv. ráðherra hafði uppi höfum við ekki til þess að undirstrika þýðingu máls af þessum toga þannig að ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn um að þetta gangi eftir.

Auðvitað er sjálfsagt fyrir alþingismenn að takast á ef ágreiningur er uppi og síðan að reyna að ná niðurstöðu. Til þess er þessi málstofa, Alþingi Íslendinga.

Það er ekki ástæða, virðulegur forseti, að hafa mikið fleiri orð. Ég vil þó nefna að hæstv. núv. iðnrh. er þetta mál vel kunnugt þar sem hann átti sæti í iðnn. þingsins á árum áður, bæði iðnn. neðri deild og síðan í iðnn. sameinaðrar málstofu. Og árið 1990 náðum við prýðilega saman um ekki óskylt efni í löggjöf, frv. sem ég átti þátt í að færa inn í þingið á sínum tíma. Það varðaði eignarrétt íslenska ríkisins á auðlindum hafsbotnsins sem er nú stærra svæði en það sem við erum að ræða um hér, þurrlendið. Það náðum við að lögfesta með góðu samkomulagi og ég held samhljóða að lokum í þinginu án þess að ég vilji þó alveg fullyrða það. Ég held að það hafi verið nokkurn veginn a.m.k. samhljóða afgreiðsla á því máli þar sem því er slegið föstu, með leyfi forseta, í 1. gr. þeirra laga: ,,Íslenska ríkið er eigandi allra auðlinda á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga og svo langt til hafs sem fullveldisréttur Íslands nær samkvæmt lögum, alþjóðasamningum eða samningum um einstök ríki.``

Um þetta var ekkert kveðið á um í lögum fram að þessum tíma. Með þessari löggjöf sem aðeins er sjö greinar var þarna færð út lögsaga þjóðareignar á þessu stóra svæði. Og það er von mín að við hæstv. iðnrh. getum náð saman með ekki ósvipuðum hætti um þessi mikilvægu mál að því er varðar tillögurnar sem hér liggja fyrir og þær tillögur sem hæstv. ráðherra væntanlega reiðir fram á yfirstandandi þingi.