Jöfnun atkvæðisréttar

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 17:13:04 (1308)

1995-11-27 17:13:04# 120. lþ. 41.9 fundur 188. mál: #A jöfnun atkvæðisréttar# þál., Flm. VK
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[17:13]

Flm. (Viktor B. Kjartansson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um jöfnun atkvæðisréttar. Tillagan hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að leggja fram, fyrir árslok 1996, tillögur um breytingar á kosningalöggjöfinni sem leiða til jöfnunar atkvæðisréttar.``

Í greinargerð með tillögunni koma fram nokkrar röksemdir sem ég ætla að nefna í ræðu minni.

Kosningarrétturinn er einn af hornsteinum lýðræðisins. Það er grundvallarréttur borgaranna að kjósa fulltrúa á löggjafarsamkomu þjóðarinnar. Því verður að teljast brot á mannréttindum að vægi atkvæða borgaranna sé bundið búsetu en sé ekki jafnt hvar á landinu sem menn búa.

Þegar niðurstöðutölur síðustu alþingiskosninga eru skoðaðar kemur í ljós að vægi atkvæða á einum stað getur verið allt að þrisvar sinnum meira en vægi atkvæðis annars staðar á landinu. Þetta er óréttlæti sem ekki verður búið við öllu lengur.

Oft heyrist nefnt að eðlilegt sé að viðhalda þessu ójafnrétti því að með algjöru jafnræði næðu of fáir þingmenn landsbyggðarinnar kjöri á Alþingi. Þessi málflutningur hlýtur að teljast mjög alvarlegur því verið er að segja að eðlilegt sé að skerða grundvallarmannréttindi borgaranna í því skyni að tryggja ákveðnum íbúum landsins aukið vægi á löggjafarsamkomu þjóðarinnar vegna búsetu þeirra.

Ýmsir telja að undirrót margra rangra ákvarðana, sem teknar hafa verið á síðustu áratugum og nú koma fram í vandamálum þjóðarinnar, megi rekja til þess að meirihlutavilji hennar var hafður að engu í skjóli ójafns vægis atkvæða.

Á síðustu árum hafa nokkrum sinnum verið fluttar tillögur á Alþingi um breytingar á kosningalöggjöfinni til að tryggja jafnræði íbúa landsins. Fyrir síðustu alþingiskosningar var stigið lítið skref í átt til jafnræðis með því að festa svokallaðan flakkara í Reykjavíkurkjördæmi. Hins vegar hefur einkennt þennan málaflokk að Alþingi hefur ekki gefið sér nægan tíma til þess að koma með tillögur, ræða þær og ná samkomulagi milli fulltrúa ólíkra sjónarmiða. Hér er því lagt til að tillögur ríkisstjórnarinnar berist fyrir árslok 1996 þannig að nægur tími fáist til þess að ræða þær og hrinda nauðsynlegum breytingum í framkvæmd.

[17:15]

Virðulegi forseti. Það er einn kjarninn í tillögunni að ríkisstjórnin skili af sér tillögum fyrir árslok 1996. Það er mjög mikilvægt því að það gengur ekki eins og hefur gerst áður að tillögur um svona mikilvæg málefni renni í gegn á handahlaupum nokkrum dögum fyrir lok þingsins.

Áður þegar þessi mál hafa verið á dagskrá hefur komið fram að náðst hafi að jafna vægi á milli flokka. Veltum fyrir okkur orðunum ,,milli flokka``. Getur það verið einhver grundvallarstefna að jafna atkvæði á milli flokka? Þarf ekki að jafna atkvæði á milli borgaranna? Þar er það grundvallaratriði sem þarf að leiðrétta.

Ýmsar hugmyndir hafa verið reifaðar um það hvaða leið sé best til þess að stíga þetta skref. Ég tek ekki afstöðu um leiðir til þess að ná fram þessu markmiði. Ég held að gott sé að skoða allar hugmyndir og allar hugsanlegar útfærslur á því hvernig ná megi þessu markmiði. Ég veit að möguleikarnir eru mjög margir og það eru mörg kerfi hjá nágrannaþjóðum okkar og rétt er að skoða þau öll áður en ákvörðun er tekin um það hvaða leið sé hin eina sanna. Þó verð ég að segja eftir að hafa skoðað nokkrar hugmyndir og nokkrar útfærslur að ég sé einna mest af mótrökum gegn þeirri tillögu að gera landið að einu kjördæmi. Það útskýrir reyndar ekki hvort einungis sé einn listi fyrir allt kjördæmið því að landið getur verið eitt kjördæmi án þess að eingöngu sé borinn fram einn listi fyrir hvern flokk. Ég tel að það auki flokksræðið mjög mikið ef eingöngu einn framboðslisti er lagður fram fyrir allt landið í stað þess að gera landið að einu kjördæmi en hafa þó einnig marga lista í boði eins og gert er. Ég held að slíkt fyrirkomulag sé í Hollandi.

Að lokum vil ég segja þetta. Á þessu þingi hafa verið ræddar nokkrar hugmyndir sem tengjast óneitanlega þessum málaflokki. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir mælti fyrir frv. um aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og í þeirri umræðu kom einmitt fram sú nauðsyn að jafna vægi atkvæða og mætti þá hugsanlega hrinda slíkum hugmyndum í framkvæmd á sama tíma og gengið yrði í að skera á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að það komi fram varðandi tillöguna að einnig verður að einfalda kosningalöggjöfina um leið og þessar tillögur verða lagðar fram. Ég held að núverandi kosningalög séu svo flókin að mjög fáir skilji niðurstöðu kosninga eftir að hafa fylgst með kosningasjónvarpi og ég tel ófært að vera með svo flóknar reglur. Ég ætla að nefna tvö dæmi frá síðustu alþingiskosningum um hve margir kjósendur eru að baki hverjum þingmanni. Á Vestfjörðum eru 1.267 atkvæði að baki hverjum þingmanni á meðan 4.081 atkvæði eru að baki hverjum þingmanni Reykvíkinga og er hlutfallið þarna á milli 3,22, þ.e. rúmlega þrefalt fleiri atkvæði eru að baki hverjum þingmanni Reykvíkinga en Vestfjarðakjördæmis.