Jöfnun atkvæðisréttar

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 17:27:32 (1310)

1995-11-27 17:27:32# 120. lþ. 41.9 fundur 188. mál: #A jöfnun atkvæðisréttar# þál., SvG
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[17:27]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Mér finnst að í þessari tillögu og í málflutningi manna í dag sé að nokkru leyti gengið út frá grundvallarmisskilningi sem mér finnst nauðsynlegt að benda á. Þar er gengið út frá því að það sé hlutverk ríkisstjórnarinnar að gera tillögur í þessum efnum. Það er ekki. Það er hlutverk Alþingis að taka ákvarðanir í þessu efni. Þannig hefur það alltaf verið þegar fjallað hefur verið um breytingar á kosningalögum að það hefur verið verkefni formanna stjórnmálaflokkanna á hverjum tíma, a.m.k. til að byrja með þegar kannað er hvort víðtæk, pólitísk samstaða getur náðst um málið og ég vil að það sé svo. Það er skoðun mín að þetta sé heppilegt fyrirkomulag, þetta eigi ekki að vera ríkisstjórnarmál þar sem stjórnarflokkarnir koma sér saman með um málið. Það er óeðlilegt fyrirkomulag. Þess vegna tel ég að það séu engin rök fyrir því að gagnrýna t.d. Alþfl. fyrir að hann hafi ekki komið málinu fram á síðasta kjörtímabili af því að hann var stjórnarflokkur. Staðreyndin er sú að það sem skiptir máli í þessu sambandi er forustan og vilji forustunnar, þ.e. venjulega forustumanna stærsta eða stærstu flokkanna til þess að ráða þessum málum til lykta. Þess vegna tel ég, hæstv. forseti, að þetta sé mál sem hæstv. forsrh. og formaður Sjálfstfl. á að ræða sem allra fyrst í sínum flokki og við aðra formenn flokka sem eiga fulltrúa í þessari stofnun. Ég vil leyfa mér að spyrja hv. flm. hvort þessi mál hafi verið rædd í þingflokki Sjálfstfl. með hliðsjón af þeim forustuskyldum sem formaður stærsta flokksins hefur í málinu. Ef Sjálfstfl. gerir ekkert í málinu koma væntanlega einhverjir aðrir og gera hlutina. En ég held að við eigum að fara skipulega yfir þetta í flokkunum og ég hvet til þess.

Í öðru lagi varðandi breytingar á kosningalögum tek ég eftir því að í tillögunni stendur: Taka upp fyrirkomulag sem leiðir til jafnara vægis atkvæða, hygg ég að það sé orðað nokkurn veginn. Hv. flm. talar ekki um að atkvæðavægi eigi að vera eins í landinu öllu og ég held út af fyrir sig að það sé skynsamlegt að nálgast málið almennt séð eins og hann vill gera til þess að reyna að ná sem mestri sátt um það í þessari stofnun.

[17:30]

Hæstv. forseti. Það eru nokkur atriði sem ég vildi koma á framfæri í umræðunni og það er þetta: Viljum við gera róttækar breytingar á þessu kerfi eða viljum við laga kerfið eins og það er, eins og það var afgreitt 1983? Ég tel að það kerfi hafi mjög marga kosti. M.a. tel ég að það sé tiltölulega gagnsætt og engum manni vorkunn að setja sig inn í það í meginatriðum. Í rauninni er það eitt einfaldasta kosningakerfi sem um getur ef menn eru með uppbótarkerfi á annað borð. Hv. síðasti ræðumaður gagnrýndi að atkvæði, t.d. í Reykjavíkurkjördæmi, getur skilað inn manni í Vestfjarðakjördæmi eins og þetta er núna, langt í burtu, einhverjum manni sem menn eru jafnvel á móti. Ég skil nú ekki alveg hvað hv. þm. átti við, hvort það er þannig í Framsfl., ég þekki það ekki svo vel, ég var þar bara í eitt ár. En auðvitað verður það alltaf þannig, hæstv. forseti, að ef það er uppbótarkerfi þá getur atkvæði á Vestfjörðum skilað inn manni í Reykjavík og öfugt. Það verður alltaf þannig ef um er að ræða uppbótarkerfi fyrir landið allt. Við höfum flest verið þeirrar skoðunar að það eigi að vera til eitthvert svona uppbótarkerfi. Nú geta menn komist að þeirri niðurstöðu að landið eigi að vera eitt kjördæmi. Þá segi ég alveg eins og hv. flm. sagði, ég hygg að það hafi verið hann sem nefndi það fyrstur hér í dag, að ég mundi óttast flokksræði í því sambandi. Ég mundi líka óttast ef um óraðaðan lista væri að ræða eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefndi sem möguleika að konur ættu erfiðara uppdráttar í þeim slag heldur en karlar. Ég held að það sé mjög margs að gæta í þessu efni án þess að ég sé út af fyrir sig að draga úr því að menn ræði málið.

Ég vil benda á tvö eða þrjú atriði sem ég teldi nauðsynlegt að breyta. Það fyrsta er að ég vil að fólk geti kosið fólk. Ég vil að kjósendur geti kosið menn og jafnvel ekki bara á einum lista heldur tveimur eða þremur listum í sama kjördæmi. Ég tel að núv. kerfi þar sem þetta er þannig að menn fela sig inni á listum, sérstaklega þegar þeir eru óánægðir með sjálfa sig og hafa skandalíserað mikið á kjörtímabilinu sem var að líða, byggt einhver hús sem á að fela eða svoleiðis, þá fela þeir sig í margmenninu. Þetta er auðvitað sérstakt vandamál með Sjálfstfl., enda er hann aðalvandamál íslenskra stjórnmála á flestum sviðum eins og kunnugt er. En þetta er alveg sérstakt vandamál með íhaldið vegna þess að þeir eru með þrjá, fjóra eða fimm menn, sex, sjö eða guð veit hvað, t.d. í Reykv. og á Reykn., og það er hægt að hrúa þar inn fólki, oft góðu fólki, sem er aldrei kallað fram til ábyrgðar. Ég er viss um að þessu fólki gremst oft að geta ekki komið sínum hlut eðlilega á framfæri. Þess vegna segi ég alveg númer eitt ef menn ætla að hrófla við kosningalögunum, leyfum fólki að kjósa fólk þannig að hægt sé að merkja við einstaklinga í þessu tilviki.

Í öðru lagi spyr ég hvort endilega þurfi að styðjast við kjördæmin eins og þau eru ef það skref yrði stigið í áttina að landinu sem einu kjördæmi? Mætti ekki hugsa sér að kjördæmin verði stækkuð og að kjördæmamörkunum verði breytt? Að Vesturland og Vestfirðir verði eitt kjördæmi? Að Norðurland vestra og Norðurland eystra verði eitt kjördæmi? Að Reykjaneskjördæmi verði sameinað Suðurlandi að hluta o.s.frv.? Eru menn tilbúnir til að skoða eitthvað af þessu tagi?

Í þriðja lagi ef menn vilja á annað borð róttækar og lýðræðislegar breytingar á kosningakerfinu, eru menn tilbúnir til að taka að einhverju leyti bandaríska kerfið sem er þannig að þingið er kosið í áföngum? Þingið er að hluta til kosið í kjördæmum en að hluta til kosið í landinu öllu. Þetta fyrirkomulag höfðum við fyrir allmörgum árum, einum 60--70 árum, þar sem uppbótarþingmennirnir voru kosnir í landskosningum. Þrír uppbótarþingmenn voru kosnir í landskosningum en að öðru leyti voru þingmennirnir kosnir eftir kjördæmum. Hver eru rökin fyrir þessu kerfi? Þetta er svipað kerfi og í Þýskalandi enn þann dag í dag. Rökin fyrir þessu kerfi eru þau að annars vegar eru menn kosnir á landsvísu með hagsmuni heildarinnar fyrir augum. Það er líka hvati til þess að flokkar slái sér saman frekar en að menn séu með allt of mikið af flokkum sem sumum er þyrnir í augum en hins vegar opnuðu menn möguleika til þess að sjónarmið byggðarlaganna heyrðust líka. Ég held að mjög nauðsynlegt sé að gera sér grein fyrir því að það er skynsamlegt að sjónarmið byggðarlaganna geti heyrst formlega. Það er betra að það gerist þannig með viðurkenndum opnum hætti en ef landið væri allt eitt kjördæmi þá mundu menn læsa sig saman með óformlegum og lokuðum hætti. Það þarf enginn að segja mér annað en að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir og hv. þm. Viktor B. Kjartansson mundu ekki gegna hagsmuna byggðarlaga sinn þó þau væru kosin á einhverjum landslistum. Ég held það sé skynsamlegra að viðurkenna þörf landshlutanna líka í þessu sambandi vegna þess að þrátt fyrir allt skiptir miklu máli að við séum með fólk sem tryggir tengsl við umhverfi sitt af hvaða tagi sem það er. Þess vegna finnst mér að það eigi ekki alltaf að tala illa um fólk sem gegnir hagsmunum kjördæma sinna. Á ekki að þakka það líka? Hvað var það þegar hv. þm. Ólafur Hannibalsson kom upp með samgöngumál Vestfjarða? Var það eitthvert svívirðilegt kjördæmapot svo ég nefni dæmi. Eða þegar hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur komið upp með ótal Vestfjarðamál. Er það eitthvert kjördæmapot, sem á að gagnrýna, banna eða leggja niður, eða hvað? Ekki að mínu mati. Alþingi á að vera í sambandi við Íslendinga af því að þetta er Alþingi Íslendinga.