Jöfnun atkvæðisréttar

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 17:37:14 (1311)

1995-11-27 17:37:14# 120. lþ. 41.9 fundur 188. mál: #A jöfnun atkvæðisréttar# þál., JBH
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[17:37]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ástæða er til að rifja það upp í tilefni af þessari litlu tillögu að nú eru liðin 68 ár frá því fyrst var flutt tillaga á Alþingi Íslendinga um jöfnun atkvæðisréttar. Flutningsmaður var Héðinn Valdimarsson og árið var 1927. Hann lét sér ekki nægja að flytja einhverja fróma ályktun til ríkisstjórnar, sem þá sat sem var allra ríkisstjórna ólíklegust til að taka mark á tillögunni, heldur flutti hann tillögu um það hvernig þessum jöfnuði skyldi náð, þ.e. tillagan var um landið eitt kjördæmi, hlutbundnar kosningar um land allt, eina málstofu og að fjölda þingmanna megi breyta með lögum. Það skuli með öðrum orðum ekki vera stjórnarskrárbundið. Allt frá þeim tíma hefur þetta verið stefna Alþfl., í 68 ár. Sá flokkur sem hefur sögulega séð af mestu harðfylgi beitt sér gegn þessari tillögu er flokkur þess hv. þm. sem hér talaði áðan, hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur, fulltrúa Reykjaneskjördæmis. Ég skil ósköp vel af hverju hún flytur tillöguna. (Gripið fram í: Nú?) Afsakið, ég biðst velvirðingar. Þetta þarfnast skýringa vegna þess að af því hafa spurst blaðafregnir að hv. þm. hafi ætlað sér að flytja þessa tillögu en ekki fengið stuðning til þess í þingflokki sínum og þess vegna breytt málinu í fyrirspurn til forsrh. En hv. þm. sem nú flytur tillöguna á eftir að svara því hvort hann hefur fengið einhverjar undirtektir við hana í þingflokki sínum.

Í seinustu kosningum mun það hafa verið svo að u.þ.b. helmingur þeirra sem af einhverjum ástæðum, mér meira og minna óskiljanlegum, kaus Framsfl. var í kjördæmunum Reykv. og Reykn. Út á helming fylgis flokksins fengust fjórir þingmenn. En atkvæðastokkurinn sem þeir unnu sér, nýframsóknarmennirnir í Reykv. og á Reykn., fór síðan að skila inn gömlu og gildu framsóknarmönnunum á þing sem eru áreiðanlega samkvæmt hefð harðsnúnir andstæðingar þessara hugmynda og þessara tillagna þangað til annað sannast. (Gripið fram í: Ekki allir mjög gamlir.) Gamlir í hettunni, segi ég, kannski ekki gamlir að lífaldri, en genin segja til sín.

Það mun vera svo einnig í síðustu kosningum að 65% þjóðarinnar í þessum tveimur kjördæmum náðu 31 þingmanni, þ.e. minni hluta á þingi, en 35% þjóðarinnar í hinum kjördæmunum sex fengu út á það meiri hluta þingmanna. Það er fróðlegt út af fyrir sig að rifja það upp til að staðfesta þetta hvernig misvægi atkvæðanna er. Tölurnar í kosningunum þar á undan eru þær að fyrir 100% atkvæðisrétt frænda minna og vina á Vestfjörðum höfðu kjósendur á Norðurl. v. 98% úr atkvæði, Austurl. 72% úr atkvæði, Vesturl. 66% úr atkvæði, Suðurl. 56% úr atkvæði, Norðurl. e. 50% úr atkvæði, Reykn. um 33,3% úr atkvæði og Reykv. 32% úr atkvæði.

Efnisgrein þessarar tillögu er um að skora á ríkisstjórn að leggja fram fyrir árslok 1996 tillögu um breytingar á kosningalöggjöfinni sem leiða til jöfnunar atkvæðisréttar, ekki að gera hann jafnari. Ég skil þetta svo að hv. flm. sé að gefa sér þá grundvallarforsendu að það eigi ekki að prútta með mannréttindin, reglan einn maður eitt atkvæði, eigi að verða grundvallarregla.

Hv. þm. Svavar Gestsson sagði að það væri missmíð á þessari tillögu að þetta er áskorun á framkvæmdarvaldið, þ.e. þá sem stýra stjórnarflokkunum. Það er komin reynsla á það hvernig gekk og hvernig hefur gengið, ekki bara í tíð fyrri ríkisstjórnar heldur í tíð allra ríkisstjórna í sögu lýðveldisins, sögu þingræðisins á Íslandi, hvernig þetta hefur gengið. Hv. þm. Svavar Gestsson sagði að þetta væri verkefni þingsins. Þingið hefur spreytt sig á þessu, forustumenn þingflokka hafa spreytt sig á þessu. Dæmigerð er niðurstaðan 1987. (Gripið fram í: Niðurstaðan 1983.) Já, 1983 sem gekk í gildi 1987. Niðurstaðan varð því miður sú að það staðfestist, ég held endanlega, að þingið er ófært um að vinna þetta verk. Þar var raunverulega öllum grundvallarreglum klúðrað. Það sem gerðist var það að einstaka áhrifamiklir þingmenn og forustumenn þingflokka prúttuðu sig niður á niðurstöðu sem var sannarlega meira og minna óskiljanleg öllum almenningi og í mörgum tilvikum var aðalverkefni reiknimeistarans að reikna hv. þm. inn á þing með því að búa til undanþágur og skafanka á þessa reglur. Þetta var dapurleg reynsla. Af þessu kynnu menn að álykta að raunverulega geti menn ekki gert sér vonir um að þessi mál verði leyst þannig að grundvallarreglur mannréttinda verði virtar á annan veg en þann að efnt verði til sérstaks stjórnlagaþings. Kosið verði til þess samkvæmt grundvallarreglunni, einn maður eitt atkvæði, og þessu stjórnlagaþingi falið beinlínis þetta verkefni, endurskoðun á kjördæmaskipun og kosningarrétti og eftir atvikum breytingum á stjórnarskrá. Nú þurfum við að breyta stjórnarskrá því illu heilli var kjördæmaskipun og fjöldi þingmanna bundið í stjórnarskrá.

Því var yfirlýst í tíð fyrrv. stjórnarsamstarfs að það ætti að vinna að jöfnun atkvæðisréttar. Hvað gerðist? Það er réttmæt gagnrýni að það var seint tekið á málinu. Að sjálfsögðu var frumkvæðið að því í höndum hæstv. forsrh. Hvaða hugmyndir höfðu svo flokkarnir fram að færa þegar á reyndi? Lítum fyrst á Sjálfstfl. Hann vísaði til tillagna sem mér skilst að hafi verið samþykktar innan flokks um fjölgun kjördæma og þar á meðal að kljúfa Reykjavík og Reykjanes í minni kjördæmi, skref stigið í átt til fámenniskjördæma sem við höfum að vísu reynslu af áður. Niðurstaðan varð sú að þessi tillaga var ekki um jöfnun atkvæðisréttar. Það hafði verið stigið hænufet. Í staðinn fyrir misvægi upp á 3,7 hefði misvægið verið á bilinu 2--2,5. Hver var tillaga Framsfl.? Tillaga Framsfl. var útspekúleruð. Hún var um það að byggja á núv. kjördæmaskipan, færa þingmenn frá landsbyggðarkjördæmunum til Reykv. og Reykn., fjölga síðan jöfnunarsætum. Niðurstaðan hefði síðan leitt til þess að koma á tveggja flokka kerfi í landsbyggðarkjördæmunum sem er út af fyrir sig sjónarmið. En þegar þessar tillögur voru vegnar á mælikvarðann, hverju hefðu þær skilað í jöfnun atkvæðisréttar? Þá var það sama eins og með tillögur Sjálfstfl., hænufet. Það hefði sennilega náð því að gera ójafnvægið jafnmikið og það var 1959. Það er ekki gæfulegt þegar þeir sem lýsa því yfir að þeir vilji virða mannréttindi og lýsa því yfir að þeir vilji ná því markmiði að koma á jöfnun atkvæðisréttar koma síðan með tillögur í umboði flokka sinna sem taka ekkert mark á grundvallarforsendunum. Það er þrautrætt og liggur fyrir ef menn meina eitthvað með því sem þeir eru að segja, ef þeir meina að þeir vilji tryggja jöfnun atkvæðisréttar, ekki bara milli flokka, heldur milli einstaklinga, að menn njóti mannréttinda, að ekki er hægt að útfæra það þannig að öllum skilmálum sé fullnægt með öðrum hætti en tillögunni um landið eitt kjördæmi og hlutfallskosningar.

[17:45]

Í umræðunni fyrir seinustu kosningar sem var nokkur, einkum að frumkvæði ungs fólks í stjórnmálaflokkunum sem var sammála um kröfuna um mannréttindin, var einkum tínt til að menn vildu að markmiðin væru þessi: Jafn atkvæðisréttur án tillits til búsetu og án tillits til flokksaðildar, að þingstyrkur flokka verði í samræmi við kjörfylgi. Á það var bent að það væri æskilegt að kerfið væri þannig að það þyrfti ekki að hringla með það á fárra ára fresti til þess að laga það að breyttum aðstæðum, breytilegu búsetumynstri o.s.frv. Það væri æskilegt í þessu litla þjóðfélagi að ekki væri verið að tvístra fólki í girðingar og ýta þannig undir óþarfa fyrirgreiðslupot. Og mikil áhersla var lögð á það að menn vildu persónuval. Jafnframt að þetta væri einfalt og öllum auðskilið og unnt væri að hafa kerfið þannig að hlutur kvenna og ungs fólks væri ekki fyrir borð borinn. Niðurstaðan af þessum umræðum var mjög einföld. Hún var sú: Það er ekki hægt að fullnægja þessum skilmálum nema með því að gera landið að einu kjördæmi eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagði --- ég vona að hún fylgi því eftir í sínum flokki --- hvað með þá sem óttast vaxandi flokksræði? Því er til að svara að þá verður að taka á því máli t.d. með því að færa vald til á sveitarstjórnarvettvangi heim í héruð. En miðstjórnarvald flokka þurfa menn ekki að óttast vegna þess að það er einfalt að koma þessu persónuvali fyrir, þ.e. meira að segja ekki aðeins að menn geti valið af listum heldur að menn geti valið sér þingmannsefni af lista fleiri en eins flokks. Svokallað kjörbúðarkerfi sem við mælum reyndar með.