Jöfnun atkvæðisréttar

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 17:51:51 (1315)

1995-11-27 17:51:51# 120. lþ. 41.9 fundur 188. mál: #A jöfnun atkvæðisréttar# þál., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[17:51]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Saga stjórnarskrármálsins á Íslandi er orðin löng, ekki síður en saga kosningalöggjafar. Þessa stjórnarskrá fáum við úr hendi herraþjóðarinnar. Hún hefur verið í nefnd allan tímann síðan og er enn. Það hafa jafnvel orðið til heilu stjórnmálahreyfingarnar sem hafa lýst róttækum breytingum á þessari stjórnskipun. Margt er gagnrýnivert í henni. Eitt með öðru, þá er yfirleitt ekki gert ráð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu í gildandi stjórnskipan nema að sjálfsögðu þegar um er að ræða breytingar á stjórnskipuninni sjálfri. Ég hef verið þeirrar skoðunar að ekki sé ástæða til þess að rjúka til með ákvarðanir um þjóðaratkvæðagreiðslu í einstökum málum eins og viðskiptasamningum og öðru slíku. Við erum öll bundin af stjórnarskránni að því er varðar tillögur um breytingar á henni þannig að það er ekkert um að ræða. Ef við ætlum að breyta stjórnskipuninni, stjórnarskránni, og kjördæmaskipunin er að hluta til bundin í henni, þá ber að viðhafa þjóðaratkvæðagreiðslu og vísa málinu til þjóðarinnar. Hjá því verður ekki komist.