Jöfnun atkvæðisréttar

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 17:58:34 (1317)

1995-11-27 17:58:34# 120. lþ. 41.9 fundur 188. mál: #A jöfnun atkvæðisréttar# þál., ÓHann
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[17:58]

Ólafur Hannibalsson:

Herra forseti. Hér er tekið á dagskrá stórt og mikið mál en í mjög stuttu máli orðað í þessari þáltill. Það á að fela ríkisstjórninni að búa til tillögur sem leiða til jöfnunar atkvæða og leggja fyrir þingið fyrir lok næsta árs. Það er svolítið einkennilegt eftir alla þá löngu umræðu sem hefur verið utan þings um þetta mál, fjöldi manna hefur haft það sem sitt eina stefnumál í prófkjörum ýmissa flokka á Reykjavíkursvæðinu að þegar yrði gert eitthvað í þessum málum. Sumt af þessu fólki hefur verið kosið inn á þing. Það einkennilega hefur gerst að þegar það hefur verið komið hingað inn í þessa sali hefur málið gleymst. Síðan kemur að næstu kosningum og nýjum prófkjörum og enn taka þeir upp sama jarmið.

[18:00]

Aldrei hefur nokkur maður lagt fram einhverja tillögu um hvernig á að framkvæma þessa jöfnun nema þetta eina úrræði sem menn hafa, þ.e. að landið allt verði eitt kjördæmi. Hingað til hefur barátta stjórnmálaflokkanna snúist að því að jafna atkvæði milli flokka og það hefur tekist þokkalega en þó eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir minnti áðan á að í ýmsum tilvikum eru kosningalögin ekki ljós og það er galli á kosningalöggjöfinni þegar menn vita ekki hvaða afleiðingar atkvæði manns hefur. Hvernig á svo að bæta úr því? Til þessarar jöfnunar atkvæða hefur verið notuð allflókin reikniregla sem var mikið rædd í blöðunum á sl. vetri, svokölluð d`Hondt-regla minnir mig að hún heiti og það hafa verið reynd mörg afbrigði af henni og þetta var það sem menn féllust á að lokum. Það hefur verið útlistað af miklum reiknimeisturum að erfitt sé koma fram með reglu sem fullnægir skilyrði um jöfnun milli flokka. Enn erfiðara er það ef bæta á við annarri reglu sem á að tryggja að eitt atkvæði sé jafngilt í öllum kjördæmum. Ég veit ekki til þess að neinn hafi gert grein fyrir því hvernig hann ætlar að viðhafa þá reiknireglu sem er nauðsynleg forsenda fyrir því að hægt sé að ræða þetta mál af einhverju viti.

Annað í þessu sem hver tekur upp eftir annan er að þetta séu mannréttindi, þetta sé spurning um mannréttindi. Ég er vissulega á því að atkvæðisrétturinn sé mannréttindi og það séu sjálfsögð mannréttindi sem við eigum að halda fram um allan heim. Fyrir nokkrum vikum urðu umræður um það hvort mannréttindi ættu að vera öðruvísi í Kína en á Íslandi og umræðan hneigðist heldur að því að mannréttindi væru universal. Það ættu að gilda þá sömu mannréttindi um allan heim. Ég skal trúa þessu fólki þegar Ísland flytur um það tillögu á þingi Sameinuðu þjóðanna að Kínverjar fái 4.000 fulltrúa þar til þess að við fáum að hafa einn og ég skal trúa þessu fólki þegar fulltrúar Íslands flytja tillögur í Norðurlandaráði, í Evrópusambandinu, í Evrópuráði og hvar sem þeir eru á Evrópuvettvangi um það að hlutfall íslenskra fulltrúa verði í hlutfalli við stórveldi heimsins. Atkvæðisrétturinn er mannréttindi en það er hægt að haga honum margvíslega og ég veit ekki betur en ríki eins og Bandaríkin og Bretland hafi hingað til verið talin til lýðræðisríkja þó að því hafi farið fjarri að reglan ,,one man one vote`` eins og það heitir á ensku, eða að eitt atkvæði sé jafngilt hjá öllum, hafi verið höfð í heiðri um aldir. Það liðu a.m.k. 200 ár frá því að stjórnarskrá Bandaríkjanna var sett þangað til hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði að þessi regla skyldi gilda um kosningar til fulltrúaþingsins en eftir sem áður er þó kosið til senatsins samkvæmt landamerkjum, þ.e. hvert 50 ríkja Bandaríkjanna hefur tvo fulltrúa án tillits til fólksfjölda.

Ef við teljum það mikilsvert eins og hv. þm. Svavar Gestsson vék að áðan að þingmenn séu í tengslum við ákveðna hópa fólks sem eru landfræðilega afmarkaðir þá höldum við kannski í núverandi kjördæmaskipan með einhverjum breytingum en við höldum okkur við þá kjördæmaskipan að landið skiptist í kjördæmi og þá verðum við að finna einhverja reglu til þess að jafna atkvæðin innan þess kerfis.

Ég er nokkurn veginn sammála því sem hefur komið fram hér að Alþingi sé ófært um að leysa þessi mál. Spurningin er hvort stjórnlagaþing verður eitthvað færara um að leysa þau. Hverjir verða kosnir á stjórnlagaþingið? Treysta menn sér til þess að útiloka þingmenn og ráðherra frá kjörgengi til stjórnlagaþingsins eða verða sömu mennirnir kosnir þar og nú sitja á Alþingi? Við það að skipta um nafn, munu þeir þá taka sinnaskiptum og ganga frá einhverjum skynsamlegri ályktunum um málið eða skynsamlegri lagagerð um málið en þeir hafa gert á Alþingi?

Ég vil gjarnan fá að heyra hvernig menn hugsa sér atkvæðagreiðslur í landi sem er eitt kjördæmi, ef það verða 9 framboðslistar eins og í síðustu kosningum og kosnir 63 þingmenn, kannski má fækka þeim eitthvað, --- við skulum gera ráð fyrir að það verði kosnir 63 þingmenn --- þá verða 500 frambjóðendur aðalmenn á þessum listum. Ef varamenn eiga að vera þarna líka eða svipað eins og nú er eru þeir 1.000. Hvernig lítur kjörseðillinn út? Ég vil fá einhverjar skýringar á þessum framkvæmdaratriðum áður en menn halda áfram þessu mannréttindajarmi sínu.