Jöfnun atkvæðisréttar

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 18:09:02 (1319)

1995-11-27 18:09:02# 120. lþ. 41.9 fundur 188. mál: #A jöfnun atkvæðisréttar# þál., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[18:09]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að átta sig á því að þegar menn fara í það að breyta kosningalögum og stjórnarskrá setja menn sér áður en lagt er af stað tiltekin pólitísk markmið. Þegar kosningalögunum var breytt síðast settu menn sér pólitísk markmið. Þau pólitísku markmið voru í fyrsta lagi að flokkarnir sem byðu fram á landsvísu væru nokkurn veginn með álíka úthlutun á atkvæðum yfir landið allt þannig að þar væri ekki um að ræða mismunun. Í öðru lagi að um væri að ræða mismunandi þung atkvæði og menn tóku um það ákvörðun að gera þetta. Til þess að ná þessum markmiðum sem virðast ósamrýmanleg og ósættanleg urðu menn auðvitað að taka upp reiknireglur sem voru pínulítið flóknari en ella væri en hins vegar gerðu menn að mínu mati og gera enn allt of mikið úr því að þetta með reiknireglurnar sé eitthvert aðalatriði. Það er fullkomið aukaatriði. Mér fannst best hjá hv. alþm. Stefáni Jónssyni heitnum þegar hann afgreiddi þessi mál og sagði: Hvað er þetta d`Hondt og hvað er þetta Lague, eru þetta hvítvínstegundir eða hvað? vegna þess að þetta er málinu algerlega óviðkomandi og ekki á dagskrá í tengslum við málið. Ég held að við eigum að setja okkur pólitísk markmið og ég er þeirrar skoðunar að til viðbótar við þau tvö sem ég nefndi hérna áðan sé það að persónurnar sjáist, að það komi fram hverjir eru í framboði og fyrir hvað menn standa þannig að menn geti ekki falið sig í einhverri hjörð eins og Sjálfstfl. lendir oft í með þingmenn sína í Reykjavík og Reykjanesi.