Jöfnun atkvæðisréttar

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 18:10:54 (1320)

1995-11-27 18:10:54# 120. lþ. 41.9 fundur 188. mál: #A jöfnun atkvæðisréttar# þál., ÓHann (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[18:10]

Ólafur Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Það getur vel verið að mig bresti skilning á mannréttindum. En ég var ekki mikils vísari við ræðu hv. þm. Jóns Baldvins um það. Það hefur líka verið talað um að þingmenn fælu sig inni í einhverjum stórum hópi. Ég verð að segja að ég gat ekki skilið þá ræðu öðruvísi en sá ræðumaður vildi einmenningskjördæmi og þá getum við líka farið að tala um ábyrgð þingmanna, ábyrgð manna sem bjóða sig fram til starfa fyrir almenning Hvað er auðvelt að leiða þá til ábyrgðar? Hvernig verður það á stóra 100 manna listanum í ,,landið allt eitt kjördæmi``? Ég mundi gjarnan vilja sjá að hægt væri að koma á einmenningskjördæmakerfi jafnframt því að jafna atkvæðin eitthvað. Ég tel ekkert sjálfsagt að landinu sé skipt upp í þau kjördæmi sem nú eru, en ég vildi gjarnan sjá að hægt væri að draga þingmenn og aðra stjórnendur til ábyrgðar í einhverju kerfi sem væri jafngagnsætt og einmenningskjördæmin og það hefur leitt til þess að í ýmsum löndum sem hingað til hafa verið talin lýðræðislönd, þar á meðal Bretlandi sem ég veit að hv. þm. Jón Baldvin þekkir mjög vel, hafa menn ekki treyst sér til þess að hverfa frá kerfi sem hefur augljóslega galla í för með sér og mismunar m.a. mjög þeim flokki sem er þriðja hjólið á vagninum í kerfi sem er að öðru leyti tveggja flokka kerfi. Ég minni á að byltingarforinginn Margrét Thatcher, sem ríkti í 12 ár og gerbreytti bresku þjóðfélagi, hafði aldrei stærri hluta atkvæða en 44% hæst og rokkaði á milli 42 og 44%. Samt er þetta ríki talið lýðræðisríki.

Það sem ég er að segja er að það eru engin grundvallarréttindi sem segja: one man one vote, þ.e. að öll atkvæði séu jafngild til þess að ríki teljist meðal lýðræðisríkja og þeirra ríkja sem heiðra mannréttindi. Menn verða að kalla hlutina réttum nöfnum í þessari umræðu eins og öðrum og það er það sem ég er að auglýsa eftir.