Jöfnun atkvæðisréttar

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 18:13:57 (1321)

1995-11-27 18:13:57# 120. lþ. 41.9 fundur 188. mál: #A jöfnun atkvæðisréttar# þál., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[18:13]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Nauðsynlegt er að útskýra mannréttindahugtakið og greina það frá mannréttindajarmi eins og hv. þm. orðaði það. Mannréttindahugtakið er það að tryggja grundvallarlýðræðisleg réttindi allra einstaklinga, að þau séu jöfn: einn maður eitt atkvæði, án tillits til efnahags, án tillits til búsetu, án tillits til kynferðis, án tillits til trúarbragða o.s.frv. Það er mannréttindahugtakið sem við höfum skuldbundið okkur til þess að virða.

Það er fullkomlega virðingarvert sjónarmið að halda því fram að menn vilji taka upp einmenningskjördæmi og hægt er að færa einhver rök fyrir því að það geti í tiltekinni útfærslu stuðlað að ábyrgð viðkomandi þingmanns sem stendur einn frammi fyrir kjósendum sínum og er ekki falinn í einhverri sauðahjörð. Hins vegar er mjög vandasamt að útfæra það kerfi á þann veg að grundvallarreglan einn maður eitt atkvæði sé virt. Samanburður milli landa í þessu efni er ekki einhlítur. Það er t.d. mjög algengt og það eru til kjördæmi í Bretlandi þar sem kjósendafjöldinn slagar hátt upp í að vera kjósendafjöldinn á Íslandi.

Við skulum athuga að við erum mjög fámenn þjóð, að vísu í stóru landi og það er óþarfi með öllu, sérstaklega þegar það leiðir til mismununar, að tvístra þessari þjóð enn frekar. Þessi mannfjöldi er ekki meiri en svo að það er hægt að framkvæma kosningar samkvæmt grundvallarreglunni einn maður eitt atkvæði með persónuvali og þar með ábyrgð þingmannsins gagnvart kjósendum sínum. Við búum þess vegna við það að smátt er fagurt og að þessu leyti framkvæmanlegra en í miklu fjölmennari þjóðfélögum.