Jöfnun atkvæðisréttar

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 18:18:38 (1323)

1995-11-27 18:18:38# 120. lþ. 41.9 fundur 188. mál: #A jöfnun atkvæðisréttar# þál., KF
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[18:18]

Katrín Fjeldsted:

Ágæti forseti. Ég vil taka undir það sem komið hefur fram í máli ýmissa um mannréttindin og að réttlætið eina sé að einn maður eitt atkvæði nái að skjóta rótum í okkar kosningakerfi.

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með þessari umræðu og heyra menn sem setið hafa lengi á þingi lýsa því yfir að það sé ekki hægt að treysta ríkisstjórnum og það sé ekki hægt að treysta Alþingi til að taka á máli sem þessu. Það er rétt að þarna er um áskorun á framkvæmdarvaldið að ræða og skorað á ríkisstjórnina að leggja fram tillögu um breytingar á kosningalöggjöfinni. Ég verð að segja að úr því að ríkisstjórnin hefur einsett sér og sett í sinn stjórnarsáttmála að endurskoða kosningalög með það að markmiði að jafna atkvæðisréttinn, þá verðum við líka að geta tekið mark á því.

Þessi tillaga frá hv. þm. Viktori Kjartanssyni gerir ráð fyrir því að tillaga frá ríkisstjórninni eigi að berast fyrir árslok 1996. Og það er hægur vandi, hafi það ekki gerst, að menn taki þá öðruvísi á málinu. En mér heyrist að hér tali fólk úr öllum flokkum og það er ánægjulegt að heyra að það eru þó þetta margir sammála því að það eigi að afnema forréttindi sem koma fram í mismunandi vægi atkvæða. Ég er sennilega sá frambjóðandinn sem ekki komst inn þó ég væri með á fjórða þúsund atkvæða á bak við mig og er 1. varaþm. fyrir Sjálfstfl. í Reykjavík. Frambjóðandinn sem fékk 3,22% fleiri atkvæði en ég, Ólafur Hannibalsson, er sennilega sá sem ekki komst inn á Vestfjörðum og er varaþingmaður þar. Það er svolítið spaugilegt að þessar tölur skyldu koma fram í máli hér áðan. En hér stöndum við og getum ekki annað.

Það var sagt að einn sið skyldum við hafa og ég tel að þetta sé eitt af því sem við eigum að eiga sameiginlegt, við eigum að horfa á þau kerfi sem til eru í heiminum. Þau hafa öll kosti og galla. Ég er hrædd við flokksræðið á bak við það að landið verði eitt kjördæmi, ég verð að segja það. Ég er hlynnt því að almenningur geti kosið fólk og að það fólk, sem er kosið, standi fyrir máli sínu og sé ábyrgt gerða sinna, þótt það tákni að það þurfi að breyta kjördæmum. Ég er frekar hlynnt því að landið skiptist áfram í kjördæmi og þess vegna finnst mér einmenningskjördæmi mögulega mæta þessum viðhorfum mínum án þess að ég geti neitað því að slíkt kerfi hafi vankanta.

Það er gleðilegt að heyra nýja rödd úr röðum framsóknarmanna því að Framsókn var lengi vel erkióvinurinn í þessu mismunandi atkvæðavægi. En kannski er það vegna þess að ný kynslóð hefur haslað sér völl í Framsfl. og eins og hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson sagði hér, að það þarf að jafna aðstöðumuninn á annan hátt. Þetta hefur verið stefna ungra framsóknarmanna og þetta er líka stefna ungra sjálfstæðismanna þannig að ég tel að viss kynslóðaskipti séu að verða í þessu máli öllu saman á landinu.

Ég tel líka að vígin falli eitt af öðru. Við sjáum að fólk úr öllum flokkum getur sameinast um öll möguleg mál. Alveg eins og maður getur farið að velta fyrir sér kjördæmaskipuninni og kosningafyrirkomulaginu, getur maður líka velt fyrir sér flokkaskiptingunni, á hverju hún byggir núna. Hún byggir ekki á því sem hún gerði vegna þess að fólk í mörgum flokkum á samleið um aðalstefnumál þjóðarinnar. Þannig að þar gæti eitt vígið þurft að falla í viðbót. Ég er ekki að tala um sameiningu á vinstri væng. Ég er að tala um miklu víðari sameiningu og yfir á hægri væng.