Jöfnun atkvæðisréttar

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 18:40:44 (1327)

1995-11-27 18:40:44# 120. lþ. 41.9 fundur 188. mál: #A jöfnun atkvæðisréttar# þál., VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[18:40]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek alveg undir það með hv. þm. að þegar við höfum fært meira vald heim í hérað getum við farið að ræða um Ísland sem eitt kjördæmi. Ég tengi þetta algerlega saman. Það tókst ekki í síðustu tilraun að stækka sveitarfélögin. Kannski tekst það í þeirri næstu og þá finnst mér ástæða til þess að velta því fyrir sér að Ísland verði eitt kjördæmi.

Það sem hv. þm. segir um að þetta misvægi hafi ekki orðið til þess að koma í veg fyrir búferlaflutninga er svo sem rétt. En það sem ég á við þegar ég tala um að ég vilji hafa kjördæmin áfram í einhverri mynd er það bara þannig að við þingmenn þekkjum best til í kjördæmum okkar. Við erum fulltrúar fólksins og við höfum ekki tækifæri til að þekkja jafn vel til alls staðar. Það sýndi sig í umræðunni sem fór fram fyrir nokkrum dögum og hefur verið vitnað til áður í umræðunni að þegar var rætt um samgöngur á Vestfjörðum voru það fyrst og fremst þingmenn Vestfjarða sem tóku þátt í umræðunni vegna þess að þeir þekktu best til. Þannig er það. Þess vegna er það sem ég held mig við það að meðan ekki hefur náðst að færa meira vald heim í héruð höldum við okkur við kjördæmin.