Jöfnun atkvæðisréttar

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 18:42:20 (1328)

1995-11-27 18:42:20# 120. lþ. 41.9 fundur 188. mál: #A jöfnun atkvæðisréttar# þál., Flm. VK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[18:42]

Flm. (Viktor B. Kjartansson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að veita andsvör í þessari umræðu heldur hafði safnað saman þeim athugasemdum sem ég vildi koma á framfæri í lokaræðu minni. Ég ætlaði að byrja þá lokaræðu á þann veg að ég fagna þeim jákvæðum viðbrögðum sem allir þingmenn í umræðunni hefðu sett fram. En þar sem ekki allir þingmenn hafa veitt jákvæð viðbrögð, sem kom síðast fram hjá hv. 3. þm. Norðurl. e., Valgerði Sverrisdóttur, þá taldi ég eðlilegt að gera grein fyrir nokkrum atriðum.

Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir nefndi að þetta stæði í stjórnarsáttmálanum og því væri harla lítils virði að bera þetta upp sem sérstaka þáltill. En það er einmitt vegna orðalagsins í stjórnarsáttmálanum sem ég vildi gera þetta að sérstakri þáltill. því að hér segir, með leyfi forseta:

,,Að endurskoða kosningalöggjöfina með það fyrir augum að hún yrði einfaldari og tryggi jafnara vægi atkvæði milli kjördæma`` og það er það sem ég er alls ekki sáttur við. Það er ekkert jafnara þegar menn eru að ræða svona grundvallarmannréttindamál. Ég get ekki skilið þá röksemdafærslu sem sett er fram. Ef meira vald verður flutt heim í hérað er ég tilbúinn til þess að skoða þetta grundvallarmál. Ég held að menn verði að velta því fyrir sér um hvað málið snýst. Þetta snýst um grundvallarmannréttindi og þau eru ekki háð neinum utanaðkomandi skilyrðum. Þau standa algerlega ein og sér. Það að menn þekkja best til heima í sínu héraði, jú, jú, en ef menn væru fulltrúar landsins í heild mundu þeir kannski setja sig meira inn í mál annars staðar. Þeir þurfa kannski ekki að setja sig inn í mál í öðrum kjördæmum vegna þess að þingmenn þar sjá um að afgreiða þau þannig að ég hafna því að þetta séu rök í málinu. Einnig hafna ég því að þó að einhver bírókrati í Brussel hafi lýst því yfir að þetta væru ekki brot á þessum grundvallarmannréttindum þá standi það því að ég held að framsóknarmenn hafi ekki fram að þessu tekið svo mikið mark á þeim bírókrötum.