Jöfnun atkvæðisréttar

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 18:49:45 (1333)

1995-11-27 18:49:45# 120. lþ. 41.9 fundur 188. mál: #A jöfnun atkvæðisréttar# þál., KHG
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[18:49]

Kristinn H. Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið býsna skrautleg umræða. Ég hafði svo sem engan sérstakan áhuga á að blanda mér í hana en endurteknar fullyrðingar um að hér á landi væri mannréttinda ekki gætt í atkvæðisréttarmálum urðu til þess að ég sá mig knúinn til að fara upp og andmæla því að minnsta kosti hvað mig varðar. Hver þingmaðurinn á fætur öðrum hefur komið upp og haldið því fram að við byggjum ekki við það kerfi að hver maður hefði eitt atkvæði og menn væru að brjóta gegn einhverjum grundvallarmannréttindum með því kerfi sem væri hér. Ég vil biðja þá sem halda þessu fram um rök fyrir skoðunum sínum. Hvað hafa menn fyrir sér í því að hér séu brotin mannréttindi? Ég vil fá rök fyrir því, því mér er ekki kunnugt um að svo sé. Á Íslandi er það kosningakerfi að sérhver maður hefur eitt atkvæði og fullyrðingar um annað eru ósannindi. Fullyrðingar um annað eru vísvitandi tilraun til að fá hlustendur til að trúa því sem ekki er, til að búa til óréttlæti sem er ekki fyrir hendi. (ÓHann: Það heitir lýðskrum.) Það heitir lýðskrum og ég tek undir frammíkall hv. þm. Ólafs Hannibalssonar. Það er lýðskrum þegar menn byggja málflutning sinn á því að halda því að þjóðinni og áheyrendum að hér séu brotin mannréttindi með því að hver maður hafi ekki eitt atkvæði, vitandi að það er rangt. Hver einasti maður sem því hefur haldið fram í þessari umræðu veit að þetta er röng fullyrðing. Þetta er lýðskrum eins og sagt var áðan. Þegar menn kynna sér mannréttindasáttmála, bæði mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og mannréttindasáttmála Evrópuþingsins sem við höfum lögtekið hér, komast menn að raun um það að kerfið sem við höfum er ekki brot á mannréttindum. Enda hefur ekki ein einasta þjóð í Evrópu kosningakerfi af því tagi sem menn hafa verið að tala fyrir. Það er að reikningslega séð sé eitthvert vægi atkvæða nákvæmlega eins í öllum kjördæmum þess lands. Og ég bið þá sem halda því fram að nefna mér eitt land þar sem svo er. Eða ætla menn að halda því fram, eins og t.d. hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, að Ítalir hafi brotið mannréttindasáttmála þegar þeir hurfu frá hlutfallskosningakerfinu yfir í einmenningskjördæmin. Ætla menn að halda því fram að mannréttindi séu stórlega brotin af Bretum? Hvernig dettur mönnum í hug að haga málflutningi sínum með þessum hætti? Að gera kröfu um eitthvað ,,matematískt`` vægi sem er einvörðungu huglægt mat sem hvergi að því að ég veit best er til. Það er hvergi til. (Gripið fram í: Það getur komið hingað.) Hvernig dettur mönnum í hug að halda því fram að það séu brot á mannréttindum að matið sem þeir vilja sjá er ekki jafnt þegar svo er hvergi í veröldinni eftir því sem ég best veit. Og ef að mönnum finnst að misjafnt vægi atkvæða --- vægi til hvers? sé --- mannréttindabrot, þá spyr ég: Hvers vegna taka menn ekki málið upp í víðara samhengi? Hér er misjafnt vægi atkvæða t.d. eftir sveitarstjórnum. Vægi framsóknarmanns sem kýs á Akureyri í bæjarstjórnarkosningum er fimmfalt meira en vægi framsóknarmanns sem kýs í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík. Er það ekki brot á mannréttindum? (Gripið fram í: Jú.) Ætlar ekki hv. þm. Ólafur Haraldsson að beita sér fyrir því að fjölgað verði í borgarstjórn Reykjavíkur úr 15 í 75? Það verður hann að gera til þess að atkvæði framsóknarmannsins á Akureyri og framsóknarmannsins í Reykjavík vegi fullkomlega jafn þungt.

Og svona geta menn haldið áfram að rekja dæmi eftir dæmi þar sem menn, bæði innan lands og erlendis, í sveitarstjórnarmálum, alþingiskosningum og annars staðar, búa við kerfi sem gefur mismunandi vægi á úrslitin eftir því hvað þeir eru stór hluti af heildinni. Ég sé ekki fyrir mér að menn geti búið til kerfi sem í öllum tilvikum gefur alltaf hlutfallstöluna einn. Það held ég ekki. Ég held að það sé óvinnandi vegur.

Ég vil segja það, virðulegi forseti, að það kerfi sem við búum við varðandi atkvæðavægi eða áhrif á niðurstöðu kosninga er auðvitað engin tilviljun. Það er nokkurs konar jafnvægislist sem hefur verið dönsuð á undanförnum áratugum til þess að gæta að því að menn hefðu einhver þolanleg áhrif eftir búsetu eða öðrum atriðum. Ef einum þættinum er breytt verulega, t.d. ef þeim þingmönnum sem ættu að vera kosnir hér á höfuðborgarsvæðinu yrði fjölgað mjög mikið og þeim þingmönnum sem eru kosnir annars staðar að sama skapi fækkað þá er komið verulegt ósamræmi í þetta jafnvægi. Þá komast menn aldrei fram með það öðruvísi en að breyta áhrifum þess sem kosið er til, þ.e. Alþingis. Þá verður að taka ákvörðunarvald sem nú er hjá Alþingi og færa heim í hérað af því að fólkið mun aldrei una því að ráða svo litlu um sína brýnustu hagsmuni. (ÓHann: Vel sagt.) Ég er hins vegar á því og hef ævinlega verið að núverandi fyrirkomulag tryggi hagsmuni okkar úti á landi ekki nægilega vel. Við sjáum það best í þróuninni sem er sú að við höfum verið að tapa. Því þarf að gera breytingar að mínu viti til þess að við getum unnið landið aftur. Þær breytingar sem ég hef talað fyrir eru að fela heimamönnum að ráða meiru um sín mál. Ekki bara um leikskóla eða einhvern grunnskóla, því það skiptir engu máli hvort við ráðum meira eða minna um þau mál, heldur um auðlindirnar. Hverjir ráða fiskimiðunum? Dómsmál. Skattamál. Eru menn tilbúnir til að flytja eitthvað af þessum stóru málum heim í hérað? Um þetta eiga menn að ræða og forðast þessar endalausu ófrjóu umræður um eitthvað útreikningslegt vægi atkvæða. Svo þenja menn sig alveg upp í hástert og halda fram skröksögum hver á fætur öðrum um að hér sé ekki gætt mannréttinda og einhverjir innan lands hafi ekki atkvæðisrétt. Það er bara rangt að halda því fram að hér gildi ekki það að hver maður hafi eitt atkvæði. Menn eiga ekki að skrökva að fólki. Ekki einu sinni þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu.