Jöfnun atkvæðisréttar

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 18:57:40 (1334)

1995-11-27 18:57:40# 120. lþ. 41.9 fundur 188. mál: #A jöfnun atkvæðisréttar# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[18:57]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Vissulega hafa allir fulltíða Íslendingar atkvæðisrétt. En hann er misþungur og sá er vandinn. Ég vil leggja upp eftirfarandi dæmi. Segjum sem svo að ég hefði samkvæmt stjórnarskránni 200 þúsund-falt atkvæðismagn og aðrir Íslendingar einfalt. Það yrði ljúft fyrir mig. Ég einn mundi ráða meiri hluta á Alþingi. Það þætti mér eflaust ljúft. Það gengur náttúrlega ekki upp að atkvæðismagnið sé misþungt. (Gripið fram í: Ekki einu sinni í hlutafélagi?) Nei. Hv. þm. kom inn á það að í sveitarfélögunum væri staðan önnur. Hún er vissulega önnur. Það dettur engum í hug að íbúar í Glerárhverfi á Akureyri eigi að hafa meiri atkvæðisrétt í bæjarstjórn Akureyrar af því að þeir eigi heima svo langt í burtu og þurfa að fara með strætó. Það mætti segja að þeir ættu að hafa tvöfalt atkvæðismagn á við þá sem búa næst ráðhúsinu en það dettur engum í hug. Það er einmitt í sveitarstjórnunum sem atkvæðismagnið er nákvæmlega rétt. Hver maður er með eitt atkvæði og það jafnþungt. Það er mjög mikilvægt. Ég vil benda á að í alþingiskosningum duga 4.000 atkvæði frá Vestfjörðum fyrir þremur hv. þingmönnum inn á þetta hv. þing á meðan sami fjöldi manna í Reykjavík fær aðeins einn fulltrúa. Þegar taka þarf virkilega á málum þjóðarinnar hvort sem það er myndun ríkisstjórnar eða annað slíkt þá hlýtur að skipta máli hvort þessi 4.000 manns hafi þrjá fulltrúa á Alþingi eða bara einn.