Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 14:45:49 (1349)

1995-11-28 14:45:49# 120. lþ. 42.7 fundur 104#B Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra# (munnl. skýrsla), VS
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[14:45]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Mig langar til að koma inn í þessa umræðu og þá fyrst og fremst sem áhugamaður um norrænt samstarf þar sem þetta kemur inn á það. Þar er ég að tala um vegabréfasamkomulag það sem við höfum átt við önnur Norðurlönd í áratugi. Eins og hér hefur komið fram var það ákvörðun sem tekin var af forsætisráðherrum þegar í febrúar á þessu ári að Norðurlöndin skyldu ekki aðskilin hvað þetta samkomulag varðar, þrátt fyrir Schengen. Mér sýnist að sú ákvörðun hafi nú þegar verið tekin. En málið hefur allt of lítið verið rætt hér á landi og það er því svo sannarlega tími til kominn að taka það fyrir hér á hv. Alþingi. Ég hef fylgst með því lítillega í gegnum þátttöku mína í laganefnd Norðurlandaráðs. Þar m.a. fengum við á sumarfundi okkar sl. sumar dómsmálaráðherra Norðurlanda til viðræðu við nefndina og gátum lagt fyrir þá spurningar. Þeir reyndar mættu ekki allir en flestir sáu sér fært að mæta.

Þar sem þetta samkomulag er okkur svo mikilvægt, finnst mér mjög mörg rök hníga að því að við gerumst aðilar að Schengen-samkomulaginu og það þurfi eiginlega alveg sérstaklega sterk rök til þess að gera það ekki. Hæstv. dómsmrh. kom hér inn á í lok ræðu sinnar að hugsanlega hlytist af þessu of mikill kostnaður. Það gæti orðið til þess að þetta væri óæskilegt fyrir okkar eða við sæjum okkur ekki fært að taka þátt. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hver kostnaðurinn kynni að vera, hann hlýtur að hafa einhverjar hugmyndir um það hver hann er, þannig að við getum gengið einhvers vísari frá þessari umræðu.

Þar sem Noregur sem ekki er aðili að Evrópusambandinu er í svipaðri stöðu og við, óttaðist ég að það væri kannski ákveðin hætta á því að við Íslendingar yrðum hafðir út undan af því að við erum, landfræðilega séð, það langt frá hinum Norðurlöndunum. Hins vegar á Noregur sameiginleg landamæri með Svíþjóð sem þegar er orðin aðili að Evrópusambandinu og hefur sótt um inngöngu í Schengen. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. dómsmrh. hvort hann telji að Noregur fái kannski einhverja aðra meðferð og meiri völd ef af því yrði að þessi lönd gerðust bæði aðilar að Schengen, heldur en við Íslendingar. Mér finnst það mjög mikilvægt að svo sé ekki.

Í ræðu hæstv. dómsmrh. kom fram hver aðaláherslumál okkar Íslendinga eru í þessum efnum og hann segir m.a. að við þurfum að hafa áhrif í samræmi við þær skyldur sem við tökumst á hendur. Og þar á hann við Ísland og Noreg. Þess vegna vil ég spyrja: Eru líkur á því að Ísland geti fengið meiri áhrif í þessu samstarfi heldur en t.d. innan EES? Mér finnst eiginlega liggja í þessum orðum að hann sé að tala um að við eigum möguleika á að hafa þarna meiri áhrif en við höfum í sambandi við EES-samninginn.

Eins vil ég koma hér inn á mál sem gerir það að verkum að mér finnst aðild okkar að Schengen ekki alveg borðliggjandi. Þar á ég við möguleika okkar á að fylgjast með fíkniefnainnflutningi til landsins og öðrum slíkum óþverra. En í ræðu hæstv. ráðherra kemur m.a. fram, og tel ég það vera góðar fréttir, að það er í sjálfu sér hægt að skylda útlendinga til að sanna á sér deili hvar sem er innan ríkis og eins það að við munum ráða því sjálf hvenær og hvar lögregla kannar skilríki útlendinga. Auk þess getur lögreglan að sjálfsögðu leitað að slíku og handtekið og rannsakað grunsamlega einstaklinga á landamærum sem og annars staðar í landinu. Þetta finnst mér mikilvægt atriði. Ég segi ekki að ég hafi sannfærst, en þetta styrkir mig a.m.k. í þeirri trú að mun fleiri rök hnígi að því að við Íslendingar tökum þátt í þessu samstarfi heldur en gegn því.