Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 14:54:50 (1352)

1995-11-28 14:54:50# 120. lþ. 42.7 fundur 104#B Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra# (munnl. skýrsla), HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[14:54]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nú hægt að hafa áhuga á samstarfi við Evrópu án þess að strekkja inn í Evrópusambandið með beinum eða óbeinum hætti, sem betur fer. Ég vona að það verði áfram og við eigum þar sem best samstarf, eins og við þurfum að hafa. En hv. þm. dró m.a. í ræðu sinni þær ályktanir af því sem fram hefur komið að það væri eitthvert sérstakt fagnaðarefni að ekki væri tekið fram fyrir hendurnar á lögregluyfirvöldum, það væri eitthvað sérstakt að lögregluyfirvöld mættu handtaka fólk eða spyrjast fyrir um það, svona eftir sem áður. Ja, eru það nú tíðindi! En eftir stendur að ef við værum aðilar að Schengen-samstarfinu í því formi sem að það er, þá er vegabréfaeftirlit afnumið og það má ekki taka stikkprufur. Það gengur að því leyti lengra en það fyrirkomulag sem annars ríkir á vettvangi Evrópusambandsins sem slíks. Mér finnst að við eigum að láta í okkur heyra um það að hér er allt í einu verið að þröngva okkur, af þeim sem höfðu gerst aðilar að Evrópsambandinu, skömmu seinna, í allt aðra stöðu en látið var að liggja þegar sá samningur var ræddur og kynntur. Ég held því að við eigum að taka okkur tíma til þess að skoða þessi mál í heild, fá heildstæða mynd af þessu, áður en við tökum ákvarðanir um þetta efni. Því svo dýrmætt sem frelsi frá því að framvísa vegabréfi innan Norðurlanda hefur verið og væri ef kostur er, þá þurfum við auðvitað að vega það á móti öðrum kvöðum sem við værum að taka á okkur og sem eru ekkert smáræði. Þ.e. undirgangast réttarþróun Evrópusambandsins á sviðum sem við höfum verið undanskilin og tilheyrir þriðju súlu Maastricht-sáttmálans á sviði innanríkismála og réttarmála.