Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 15:12:23 (1356)

1995-11-28 15:12:23# 120. lþ. 42.7 fundur 104#B Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra# (munnl. skýrsla), HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[15:12]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé alveg ljóst að það var ekkert inni á borði í sambandi við samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði sem tengdist Schengen, þeim hópi ríkja, sex líklega talsins sem 1990 mynduðu sáttmála úr yfirlýsingunni frá 1985. Ég held að það sé villuljós hjá hæstv. utanrrh. Það skiptir sagnfræðina út af fyrir sig meira en veruleika dagsins. Og í þessu sambandi er rétt að nefna að 1991 gefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins út sérstaka yfirlýsingu vegna fyrirspurna að mig minnir frá dönsku ríkisstjórninni um það hvers megi vænta í sambandi við aðstæður á landamærum Danmerkur og Þýskalands, en Þjóðverjar voru þá orðnir aðilar að Schengen og Danir höfðu eðlilega áhyggjur. Það var farið að sýna klærnar í því sambandi að nú þyrfti að fara að herða þarna eftirlitið. En það komu einmitt yfirlýsingar um að þetta yrði ekki látið yfir þá ganga og menn mundu geta lifað við norræna vegabréfasambandið þrátt fyrir Schengen-sáttmálann frá 1990. Síðan er aftur hert á í mars sl. þegar ákveðið er að ákvæði hans gangi í gildi með ákveðnum hætti og ströngum. Þá kemur upp þessi nýja staða.

En í sambandi við vegabréfaáritanir, það er gott að vera laus við vegabréf. Það þykir ferðafólki. En hvaða áhrif ætli þetta Schengen-samkomulag hafi gagnvart þriðju löndum? Þar er um að ræða sameiginlega skyldu í sambandi við vegabréfaáritanir. Upplýsingarnar sem reiddar voru fram í norska Stórþinginu á dögunum fela það í sér að þeim ríkjum sem Noregur yrði skuldbundinn til að krefja um vísun, sérstaka vegabréfsáritun sem þriðja ríki fjölgar. Um hvað mörg? 32 talsins. Hvað skyldu vera mörg ríkin sem Ísland yrði að krefja um vegabréfaáritun ef við yrðum aðilar að Schengen? Getur hæstv. utanrrh. upplýst okkur um það?