Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 15:14:50 (1357)

1995-11-28 15:14:50# 120. lþ. 42.7 fundur 104#B Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[15:14]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég get því miður ekki upplýst það en ég fullyrði að þau eru miklu færri en að því er Noreg varðar því að við erum ekki komnir jafnlangt og Noregur í því sambandi.

[15:15]

Hitt er svo annað mál að það eru ýmsir kostir samfara því að hafa sameiginlega stefnu að því er varðar vegabréfsáritanir. Ég tel t.d. að það auki öryggi að því er varðar fíkniefni. Ég er viss um að það eykur öryggi að því er varðar ýmis mál, t.d. að því er varðar flóttamenn og ýmsa glæpastarfsemi í heiminum. Það eru því ekki bara ókostir við þetta. En aðalatriðið er að þau ríki sem þarna eiga hlut að máli geti haft eðlileg áhrif á hvaða stefnu er þar framfylgt þannig að það séu ekki eingöngu önnur ríki sem ákveða allt í því sambandi, heldur hafi Íslendingar full og eðlileg áhrif í því sambandi.

Við verðum að koma á sameiginlegri stefnu í þessum málum að því er varðar Evrópu. Það þjónar ekki hagsmunum okkar eða hagsmunum Evrópu að vegabréfaáritanir og reglur um þær séu út og suður og þetta sé sitt á hvað í hinum ýmsum löndum. Við höfum reynt að samræma þá hluti með hinum Norðurlöndunum, þótt það hafi ekki tekist að öllu leyti. Þegar ekki hefur verið um samræmingu að ræða, þá hefur það almennt verið til vandræða að því er varðar Norðurlöndin þannig að ég tel það kost, ef við yrðum aðilar að þessu samstarfi sem ég ætla ekkert að fullyrða um á þessu stigi, ef þar væri rekin algerlega sameiginleg pólitík.