Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 15:19:55 (1359)

1995-11-28 15:19:55# 120. lþ. 42.7 fundur 104#B Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra# (munnl. skýrsla), GHH
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[15:19]

Geir H. Haarde:

Herra forseti. Ég tel að þessar umræður séu gagnlegar og nauðsynlegar í þessu máli. Það hefur verið afskaplega þarft verk hjá hæstv. dósmrh. að leggja fram þessa skýrslu og kynna málið með þeim hætti sem hér hefur verið gert.

Ég tel hins vegar að þetta mál sé kannski ekki alveg nægilega skýrt fyrir þingmönnum öllum. Ég lít svo á að það sé eingöngu vegabréfaskoðun sem þetta mál snýst um, en ekki tollskoðun. Ég tel að það hafi verið misskilningur hjá hv. 4. þm. Norðurl. v., sem nú situr á forsetastóli, að blanda þessu tvennu saman enda stendur það í skýrslu ráðherrans að megininntak Schengen-samningsins sé frjáls för fólks innan þeirra ríkja sem eru þátttakendur í samstarfinu og afnám persónueftirlits á landamærum ríkjanna. Þetta þekkjum við auðvitað úr okkar Norðurlandasamningi, það er ekki krafist vegabréfs við komu milli landanna eða för milli landanna, en það er hægt að skoða í farangurinn hjá fólki ef því er að skipta. Ég tel að það hljóti að vera okkar samningsmarkmið í þessu máli að tryggja að við náum sambærilegu skipulagi að því er þetta varðar og ég held að það hafi reyndar verið það sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði. Og það kemur reyndar líka fram í máli hæstv. dómsmrh. að þátttakan í Schengen geri ekki ráð fyrir neinum breytingum á efnahagssamstarfinu samkvæmt EES-samningnum og við munum eftir sem áður ekki taka þátt í tollasamstarfi eða sameiginlegri skatta- og gjaldapólitík. Af þessu leiðir að við getum sem hingað til innheimt tolla og gjöld af vörum sem komið er með til landsins, svo og haft eigin reglur um gjaldfrjálst magn áfengis og fleira ásamt heimild fyrir tollyfirvöld til að hafa eftirlit með því sem ferðamenn bera með sér. Ég held að þetta verði að vera alveg ljóst, enda kemur það svo sem einnig fram í niðurlagi máls ráðherrans að fyrirkomulagið verði þannig að farþegar í flugi innan Schengen-svæðisins ferðist að meginstefnu til án vegabréfaskoðunar eins og í innanlandsflugi, þ.e. án vegabréfs eins og í innanlandsflugi. En það er ekkert talað um það hér að tolleftirlit geti ekki verið eftir sem áður eins og okkur kann að henta á hverjum tíma. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt atriði vegna þess að það hefur borið mikið á góma í þessum umræðum.

Hins vegar vil ég segja að ég er alveg sammála því sem hér hefur komið fram hjá hæstv. utanrrh. að það er auðvitað mjög mikilvægt fyrir okkur að fylgja Norðurlöndunum í þessu máli. Það skiptir miklu máli bara í sjálfu sér eins og kom fram í hans máli og hefur komið fram hjá fleirum. En auðvitað eru aðstæður hins vegar mjög ólíkar með okkur og Norðmönnum. Það hefur líka komið fram, m.a. hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni. Ég tel að það væri gersamlega óbærilegt fyrir Norðmenn að ætla að taka upp vegabréfaskoðun á landamærum Noregs og Svíþjóðar eins og blasir við ef annað landið er innan Schengen-svæðisins en hitt fyrir utan. Það er óbærileg tilhugsun og verður auðvitað óframkvæmanlegt.

Þá má spyrja: Geta þá Svíar ekki verið fyrir utan Schengen? Því er svarað í ræðu ráðherrans að því hafa þeir ekki áhuga á, enda kemur þá upp sama staða --- ef Danir, Svíar og Finnar eru fyrir utan Schengen-svæðið --- á landamærum Danmerkur og Þýskalands. Þetta hefur komið fram meira og minna í umræðunum. En við erum hins vegar ekki í þessari stöðu. Við höfum ekkert Svínasund þar sem fara 6 millj. bíla á ári yfir landamærin þannig að aðstaðan er auðvitað önnur að því er okkur varðar. Hins vegar er það mikilvægt, finnst mér, að við höfum samstarf og fylgjumst að með Norðurlöndunum í þessu efni. Og auðvitað held ég að það sé eðlilegt framtíðarmarkmið fyrir okkur og fyrir aðrar Evrópuþjóðir að draga úr vegabréfaeftirliti, eftirliti með ferðum manna, einstaklinga yfir landamæri eins og hægt er.

Ég held að það hafi ekki verið fyrr en eftir 1914 eða eftir fyrri heimsstyrjöldina sem almennt var farið að krefjast vegabréfa á landamærum milli ríkja í Evrópu og er út af fyrir sig ágætt ef hægt er að hverfa frá því þó menn hafi auðvitað eðlilegt eftirlit með glæpastarfsemi, fíkniefnasmygli og tolleftirlit eftir sem áður. En þetta tel ég að sé mikilvægt markmið og mikilvægt fyrir okkur Íslendinga. En við hins vegar getum ekki leyft okkur að segja að þetta megi kosta hvað sem er og það er spurningin sem varpað er fram í lokamálsgrein skýrslunnar: ,,Fram hjá því verður hins vegar ekki litið að kostnaður getur hindrað þátttöku í þessu samstarfi.``

Þetta vitum við því miður ekki nægilega mikið um á þessari stundu. Menn hafa verið að spyrja að því í þessari umræðu: Hvað kemur þetta til með að kosta? Hvenær kemur það í ljós? Þetta er greinilega ekki alveg ljóst enn sem komið er, en auðvitað er mikilvægt að fá það fram sem fyrst. Erum við tilbúin að borga þetta hvaða verði sem er? Það er auðvitað samviskuspurning sem við verðum að gera upp við okkur þegar staðreyndirnar í málinu liggja nægilega skýrar fyrir. Við getum ekki leyft okkur að svara því fyrir fram en ég tel að við eigum að leggja heilmikið á okkur til þess að geta verið aðilar að þessu samstarfi vegna okkar nána sambands við Norðurlöndin en líka vegna þess að við viljum geta tryggt okkar borgurum vegabréfalaus ferðalög til landanna í Evrópu og höfum ekki á móti því að borgarar í öðrum Evrópulöndum geti komið hingað á eins einfaldan hátt og hægt er.