Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 15:28:53 (1361)

1995-11-28 15:28:53# 120. lþ. 42.7 fundur 104#B Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra# (munnl. skýrsla), GHH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[15:28]

Geir H. Haarde (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hér sé gert of mikið úr ákveðnum atriðum. Það sem hefur komið fram í umræðunum er m.a. að það geta ekki aðrir orðið fullgildir aðilar að Schengen-samkomulaginu en þeir sem eru aðilar að ESB. Það sem við erum að tala um er samkomulag, samningur Íslands og Noregs annars vegar við þessi lönd sem fullnægir okkar þörfum eða óskum. Í því sambandi tel ég að okkar markmið eigi að vera frjáls för einstaklinga, vegabréfalaus för einstaklinga yfir landamæri. En það þýðir ekki sjálfkrafa fyrir okkur, a.m.k. ekki að mínu mati, að við fellum þar með niður allt tolleftirlit. Ég tel að það eigi þá í það minnsta að vera okkar markmið að semja um það þannig að við þurfum ekki að falla frá því, enda þekkjum við það úr norræna samningnum hvernig þetta er framkvæmt. Það er önnur aðgerð að hleypa fólki í gegnum vegabréfaskoðun en að tollskoða þann varning sem viðkomandi tekur með sér. Hún fer ekki fram á sama stað í viðkomandi mannvirki þar sem menn fara í gegn, hvort sem það er í flugstöð eða á hafnarbakka, þannig að ég sé ekki að þarna sé neitt vandamál á ferð og raunverulega sé ég ekki að það sé neinn ágreiningur um þetta. En ef eitthvað er óskýrt í þessu máli þá er það auðvitað eitt af því sem þarf að upplýsa í viðræðunum á næstunni.