Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 15:32:42 (1363)

1995-11-28 15:32:42# 120. lþ. 42.7 fundur 104#B Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra# (munnl. skýrsla), HG
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[15:32]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég ætla að nota tækifærið og bæta aðeins við þessa umræðu vegna þess að ekki er víst að það gefist færi á því alveg á næstunni að koma aftur að þessu á Alþingi og eðlilegt að reyna að nota tækifærið í framhaldi af skýrslu hæstv. dómsmrh. um málið.

Ég er að velta fyrir mér hvernig Alþingi geti sem best aflað þeirra upplýsinga sem ég tel alveg nauðsynlegar til þess að menn átti sig sem best á málinu áður en til ákvarðana kemur. Ég hef ákveðnar óskir í þeim efnum fram að færa við hæstv. ráðherra og má vera við báða viðstadda hæstv. ráðherra, utanrrh. og dómsmrh., því vissulega tengist málasviðið báðum ráðuneytum þeirra. Það er þá í fyrsta lagi að þingið fái í hendur grundvallargögn í málinu. Að þingmenn fái það fyrsta í hendur Schengen-sáttmálann sjálfan, helst á íslensku, en hann er talsvert mál, upp á 142 greinar auk nokkurra fylgitilvísana. Það ætti að vera auðvelt því ekki er þetta neitt leyndarplagg á neinn hátt. Ég held líka að nauðsynlegt sé að þingmenn fái í hendur þær athuganir sem fram hafa farið, m.a. á norrænum vettvangi um þessi efni, þar á meðal ágæta skýrslu sem vinnuhópurinn, sem skipaður var eftir yfirlýsingu forsætisráðherra Norðurlanda, tók saman upp á 45 bls. og heitir Schengen-sáttmálinn og hið norræna vegabréfafrelsi og er undir heitinu Tema Nord 1995 nr. 582. Þarna er að finna býsna glögga samantekt af hálfu embættismanna allra landanna sem í hlut eiga. Mér finnst alveg nauðsynlegt að þingheimur hafi aðgang að þessu. Ég eyddi hálfum degi í að pæla í gegnum þetta og fleiri pappíra þessu skylda mér til verulegs fróðleiks fyrir alllöngu, þegar skýrslan kom út. Þarna eru dregin fram fjölmörg atriði sem hljóta að vera álitamál. Ég undrast satt að segja hvernig þingmenn geta hrist fram úr erminni skoðanir í sambandi við þetta mál, álit eins og mér fannst einnig koma fram hjá fulltrúa Kvennalistans í umræðunni áðan, að það væri um að gera að halda þessu vegabréfafrelsi og helst að fá það fleirum í hendur og svo væri það spurning um kostnað. Það finnst mér að vísu ekki ómerkt atriði en mér finnst það ekki vega sem meginatriði í málinu. Við þurfum að vita hverju við hyggjumst ná, hver er ávinningurinn og hverju erum við að fórna áður en við tökum upp þetta kostnaðarmál, sem auðvitað skiptir máli þegar menn eru að leggja mat á það hverju þeir vilja til kosta. Það er væntanlega vegna þess að svo margir jákvæðir þættir eru í boði.

Síðan eru efni sem mér finnst að sérstaklega þurfi að lýsa inn í, en þau snerta upplýsingaöflun, þ.e. kerfið Schengen Information System sem er nátengt og sama eðlis og European Information System eða upplýsingakerfi Evrópu. Hugmyndin er að koma því upp í Evrópusambandssamhengi ef evrópski landamærasáttmálinn sem liggur fyrir, en er ekki staðfestur fyrir Evrópusambandið sem heild, kæmi til framkvæmda. M.a. hefur staðið á því að Bretar, Írar og fleiri ríki Evrópusambandsins hafi viljað gerast aðilar að evrópska landamærasamningnum. Í þessu mikla upplýsingakerfi er farið inn á þætti, sem mér finnst ekki sjálfgefið að eigi að opna fyrir í sambandi við upplýsingar, til að vega á móti því neikvæða sem menn viðurkenna að felist í þessu kerfi, eða erfiðara eftirlit með afbrotum og afbrotafólki, smygli á fíkniefnum og slíkum málum sem verða sífellt meira vandamál innan Evrópu. Auðvitað er það ekki bara bundið við Evrópusambandið eða Evrópskt efnahagssvæði, Austur-Evrópa á þarna líka í stórfelldum og vaxandi vandamálum. Hvaða reglur eiga að gilda um þessa upplýsingasöfnun? Menn eru þar algerlega inni á gráu svæði. Öryggi ríkisins, sem hæstv. ráðherra minntist á, er m.a. mat á því hvort viðkomandi einstaklingur ógnar öryggi ríkisins. Og hvert er hið lýðræðislega eftirlit með þessu Schengen Information System? Hvaða möguleikar eru á innsæi í því og eftirliti, m.a. af hálfu þjóðkjörinna fulltrúa? Eða að staðið sé við orð og yfirlýsingar um að upplýsingum sé ekki bara safnað inn heldur séu þær jafnvel þurrkaðar út og að farið sé vel með þær. Ég bið um það, hæstv. ráðherra, að farið sé ofan í þessi efni út frá eðlilegri persónuvernd og slíkum viðhorfum. Sagt er að þetta stangist ekki á við alþjóðasamþykktir að þessu leyti og gott ef satt er. En hvað þetta snertir eru miklar áhyggjur innan Vestur-Evrópu og Norðurlandanna. Um það geta menn lesið sem fylgjast með umræðum um þessi mál. Það eru miklar áhyggjur út af þessari upplýsingaöflun, þessum persónunjósnum í neikvæðri merkingu, sem eiga auðvitað að vega upp á móti miklu auðveldara landslagi til að ferðast í fyrir þá sem notfæra sér það í neikvæðum tilgangi, m.a. til að smygla og koma óæskilegum varningi eins og fíkniefnum á markað.

Að því er það mál varðar vil ég vitna í ágæta grein sem ég held að væri fróðlegt fyrir áhugamenn um þetta að lesa. Hún er eftir Martin Sæter og birtist í tímaritinu International Politics og heitir Schengen-avtalen og Norge, Norge í skjæringspunktet mellom europeiske og nordiske rammer. Greinin er ekki mjög löng en hún fer mjög vel, finnst mér, ofan í aðalatriði málsins. Þar er m.a. vitnað til þessara þátta og til sænskra athugana, greinargerða sem liggja fyrir í sambandi við landamæraeftirlit. Þar má og geta annarrar greinargerðar, sænskrar, sem varðar nauðsynina á samstarfi lögreglu og tollyfirvalda annars vegar og annarra sem eiga að gæta landamæra, m.a. með tilliti til smygls á fíkniefnum og slíkum óæskilegum atriðum. Þannig að það liggur heilmikið fyrir af efni um þessi stóru mál hjá nágrannalöndum. Mér finnst æskilegt fyrir þingheim að fá aðgang að þessu. Ég vil hvetja hæstv. dómsmrh. til þess að reiða það fram fyrir okkur þingmenn til þess að við eigum auðveldara með að átta okkur á þeim mörgu álitaefnum sem hljóta að vera uppi í þessu stóra máli.

Enginn ágreiningur er um að hindranalitlar ferðir fyrir fólk landa á milli eru æskilegar út frá sjónarhóli þess sem ferðast, þar á meðal þykir okkur afar vænt um norræna vegabréfasamstarfið eins og það hefur verið, þótt íslenskur ferðamaður sem fer til útlanda hafi oftast í reynd með sér vegabréfið til vonar og vara. Auðvitað auðveldar þetta og kemur í veg fyrir tafir og hindranir á landamærum. Á móti kemur hins vegar, þegar litið er á þetta út frá sjónarmiði Evrópusambandsins, að þétta verður sem best ytri landamærin gagnvart flóttamönnum, gagnvart þeim sem óæskilegir teljast, og það ekki bara inn á við. Mig langar að biðja hæstv. dómsmrh. að skýra okkur betur frá því, sem hæstv. ráðherra víkur aðeins að með einni setningu í ræðu sinni, að ætlast er til einnig að haft sé eftirlit með því hverjir fara út af svæðinu. Í reynd hefur það ekki verið gert af hálfu margra þeirra sem sækja nú um aðild, áheyrnaraðild og síðan fulla aðild að Evrópusambandinu. En það felst í skuldbindingum Schengen að það er einnig eftirlit út af svæðinu. Þar eru því þættir sem menn þurfa líka að taka með í reikninginn. Það eðlilega verið að tala um virkið Evrópu í sambandi við Evrópusambandið og þá sem því tengjast nánast og ekki að ástæðulausu. Evrópusambandið er að þróast í þétt samstarf, eins og á þeim málum hefur verið haldið, og þéttir netin gagnvart þriðju aðilum. Við Íslendingar þurfum auðvitað að meta það í okkar almennu utanríkisstefnu hvað við viljum taka mikinn þátt í þessu, hvort við séum alveg vissir um að við eigum að afsala okkur sjálfræði í sambandi við utanríkisstefnu gagnvart þriðju ríkjum til þess að vera í þessu samstarfi og þurfa að lúta ákvörðunum þess, jafnvel án þess að fá nokkru um það ráðið hverjar þær ákvarðanir eru.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að tefja þessa umræðu lengur en nauðsynlegt er. Kem ég þá aðeins að spurningunni um það sem liggur í ræðu ráðherrans og kom líka fram hjá hæstv. utanrrh. að það væri skilyrt af hálfu Íslands að við gætum verið fullgildir þátttakendur í ákvörðunum Schengen. Það væri skilyrt. Og ég vil spyrja hæstv. dómsmrh.: Telur hann líkur á því eins og málin standa núna í áþreifingum að þessu markmiði um fulla hlutdeild í ákvarðanatöku Schengen verði fullnægt en það hafa hæstv. ráðherrar báðir, dómsmála og utanríkismála, gert að miklu máli í sambandi við mat á þessu. Það tel ég vera mjög stórt atriði eins og margt sem hér hefur verið rætt annað en kostnaður og peningar. Það þarf að sjálfsögðu að meta. En það eru hin atriðin sem við þurfum að fá sem ljósust á borðið áður en við förum að velta fyrir okkur krónum og aurum í þessum málum.