Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 16:02:48 (1365)

1995-11-28 16:02:48# 120. lþ. 42.7 fundur 104#B Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra# (munnl. skýrsla), HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[16:02]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var athyglisvert sem fram kom hjá hæstv. ráðherra að hann gerði ráð fyrir því að þeir sem væru að fjalla um þessi efni af hálfu ríkisstjórna Norðurlanda væntanlega og í samvinnu við Evrópusambandið telji að það yrði ekki fyrr en 1. janúar 1998 sem fullgildingarferli hugsanlegs samkomulags þyrfti að vera lokið. Á sama tíma stendur yfir eða er kannski að baki ríkjaráðstefna Evrópusambandsins. Ég vil aftur minna á það sjónarmið hvort ekki sé eðlilegt varðandi þetta mál að doka við eftir ákvörðunum sem sú ráðstefna kynni að taka og þeim breytingum sem yrðu í kjölfarið innan Evrópusambandsins. Ég nefni það hér.

Varðandi aðstöðuna til að eiga hlut í ákvörðunum fannst mér dregið mjög mikið niður frá þeim texta sem hæstv. ráðherra las okkur í upphafi um hversu brýnt það væri að Íslendingar yrðu fullgildir þátttakendur í ákvörðunum Schengen. Eftir mál ráðherrans stóð samlíking við aðstöðu Finna innan EFTA á sínum tíma, ef ég hef tekið rétt eftir, þegar þeir höfðu þar seturétt, málfrelsi og þátttöku í nefndarstörfum. Þá leggst ekki mikið fyrir ef þetta er markmiðið. Og mér finnst mikill munur á því sem sagt var þarna í upphafi og því sem eftir stendur.

Varðandi fíkniefnamálið sem hér kom ítrekað til umræðu, vil ég óska eftir því við hæstv. ráðherra að við fáum greinargerð, að Alþingi fái greinargerð þeirra sem eru aðallega að fást við þau efni að verjast innkomu fíkniefna og hlutlægt mat á stöðunni eftir að við hefðum undirgengist meginreglur Schengen-samkomulagsins að þessu leyti.

Það kom ekki fram heldur, virðulegur forseti, hver staðan yrði eða hver þörf væri á breytingum við innkomu t.d. ferju til Seyðisfjarðar. Ég vil biðja hæstv. ráðherra að bæta þar úr ef hann hefur þær upplýsingar að gefa. Mér er alveg ljóst að það er önnur aðstaða en á Keflavíkurflugvelli að því er varðar aðkomu frá löndum utan Schengen-svæðisins og Evrópusambandsins, en það væri gott ef ráðherra hefði eitthvað um það að segja.