Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 16:05:53 (1366)

1995-11-28 16:05:53# 120. lþ. 42.7 fundur 104#B Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra# (munnl. skýrsla), dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[16:05]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst taka það fram að auðvitað er nauðsynlegt í allri umfjöllun um þetta mál að fara yfir öll atriði og þar á meðal þá möguleika sem slíkt samstarf gefur til þess að styrkja baráttu okkar gegn fíkniefnaafbrotum. Ég vona að í umfjöllun málsins, bæði í þinginu og annars staðar, verði rækilega um það fjallað og ráðuneytið er fyrir sitt leyti tilbúið til þess að leggja því lið.

Það þarf auðvitað að huga að annarri aðstöðu en á Keflavíkurflugvelli eins og á Seyðisfirði, en mér býður í grun að þar sé um miklu minni atriði að ræða heldur en varðar Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli.

Varðandi það sjónarmið hv. þm. að rétt sé að bíða með ákvarðair í þessu efni fram yfir ríkjaráðstefnuna er ég honum þar allsendis ósammála og tel að það séu engin rök fyrir því að tengja þennan feril saman við ríkjaráðstefnuna. Í sjálfu sér getum við fengið verulega reynslu með þátttöku í þessu samstarfi, en ég tel ekki að það séu nein rök til þess að bíða með ákvarðanir og hitt skipti miklu meira máli að við getum fylgt hinum Norðurlöndunum eftir.

Auðvitað er það svo varðandi þátttöku okkar í ákvörðunum að þar sem við erum ekki aðilar að Evrópusambandinu getum við ekki gerst fullgildir meðlimir og getum þar af leiðandi ekki útilokað framkvæmd samhljóða samþykkta fullgildra aðildarríkja Schengen. En það skiptir okkur mjög miklu máli að við getum tekið þátt í öllum undirbúningi ákvarðana og umræðum um þær og að formhlið á samþykktum sem verða bindandi fyrir okkur verði með fullnægjandi hætti. Og að því hljótum við að vinna í þessari samningsgerð.