Menningar- og tómstundastarf fatlaðra

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 16:22:43 (1370)

1995-11-28 16:22:43# 120. lþ. 42.9 fundur 71. mál: #A menningar- og tómstundastarf fatlaðra# þál., GE
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[16:22]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fagna þessari tillögu sem ég tel vera mjög markverða og lýsi yfir stuðningi við hana. En ég vil þó vekja athygli á því að það sem er brýnast í málefnum fatlaðra, varðar dagvistun, langtímavistun og skammtímavistun. Vandi foreldra og aðstandenda fatlaðra er gífurlegur. Þetta fólk sem ég ræði um er meira og minna bundið við umönnun þessara einstaklinga allar stundir, allar helgar og frítíma. Allar helgar og frítímar eru notaðir til umönnunar og aðstoðar. Fjárframlög til málefna fatlaðra eru mjög mismunandi eftir kjördæmum miðað við þúsund einstaklinga, ef við tökum þetta þannig, þá er allt að 100% munur á fjárframlögum á hverja 1.000 einstaklinga í einstökum kjördæmum. Það er mjög athyglivert. Það væri gaman að vita hvernig það má vera. Mér er ekki ljós ástæðan fyrir því og það væri kannski fróðlegt að heyra um það frá þeim sem þekkja ástæðuna fyrir þessum gífurlega mismun á milli kjördæma í fjárframlögum til málefna fatlaðra. Ástandið innan fjölskyldna sem búa með alvarlega fötluðum einstaklingum er oft á tíðum mjög örðugt. Ég hef heyrt foreldri lýsa fötluðu barni sem óargadýri sem það verður að fá aðstoð við umönnun á. Foreldrar hafa gert kröfu um slíka hjálp án svara frá yfirvöldum. Það verður einnig að segja að nauðsyn er að þessi málaflokkur færist frá ríki til sveitarfélaga því að það er staðreynd að sveitarstjórnarmenn telja þennan málaflokk í rauninni ekki vera á sinni könnu og vísa yfirleitt á ríkið varðandi vandamálið.

Tillagan sem hér er til umræðu fjallar um möguleika fyrir fatlaða til að njóta lista og sumarleyfa til jafns við aðra. Þetta er mikil nauðsyn að athuga vel og gera tillögu um hvernig má leysa þessi málefni. Þess vegna tók ég strax í upphafi undir meginefni tillögunnar. En mig langar að nefna örfá atriði í þessari stuttu athugasemd, sem mér finnst að þurfi að minnast á, herra forseti. Í fyrsta lagi eiga fatlaðir fullan rétt á að njóta þess sama og heilbrigðir í þeim málefnum sem þessi tillaga fjallar um. Í öðru lagi eiga fötluð börn að hafa fullan aðgang að dvalartilboðum meðal ófatlaðra barna, hvort sem um er að ræða sumardvöl eða skólabúðir. Annað kemur ekki til greina. Í þriðja lagi á að sjálfsögðu að stefna að því að opna listaskóla fyrir fatlaða. Í fjórða lagi þarf, sem grundvallaratriði, að gera byggingar aðgengilegar fyrir fatlaða. Það er forsendan fyrir því að allir eigi jöfn tækifæri.

Ég get nefnt nokkrar brotalamir í viðbót. Svo sem fréttir dagblaða sem vantar að koma fram á skiljanlegu máli, t.d. fyrir blinda og heyrnarlausa.

Herra forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu um þetta mál. En mér fannst eðlilegt að koma fram með nokkrar athugasemdir í kjölfar þess að við þingmenn Vesturlands höfum verið að ræða þennan málaflokk að undanförnu. Og eins og ég vitnaði til hér áðan þá urðu okkur ljósar þær staðreyndir sem foreldrar fatlaðra barna búa við. Kannski er mest sláandi dæmið að þeir sem eru fatlaðir komast ekki einu sinni inn í þetta hús sem við erum inni í, Alþingishús Íslendinga. Það sýnir kannski best þá stöðu sem þessi mál eru í.