Réttarstaða kjörbarna og foreldra þeirra

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 16:42:33 (1375)

1995-11-28 16:42:33# 120. lþ. 42.8 fundur 13. mál: #A réttarstaða kjörbarna og foreldra þeirra# (breyting ýmissa laga) frv., Frsm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[16:42]

Frsm. heilbr.- og trn. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. framsögumanni fyrir mjög ítarlega greinargerð með nefndaráliti um þetta frv. sem ég flutti ásamt hv. þm. Sigríði Önnu Þórðardóttur. Eins og fram kom í máli hv. þm. er þetta mál sem e.t.v. varðar ekki mjög marga. Kjörforeldrar og kjörbörn eru ekki stór og öflugur þrýstihópur. Þau hafa árum saman reynt að hreyfa breytingum á þeim lögum sem þarna er tekið á en hafa ekki fundið hljómgrunn fyrir óskum sínum. Ég held að það sem skiptir mestu máli sé nákvæmlega það sem hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir sagði. Það er nauðsynlegt að kjörforeldrar njóti sömu meðferðar og skynji það í þjóðfélaginu að þeir eru ekkert öðruvísi heldur en aðrir foreldrar. En það er sömuleiðis afskaplega mikilvægt fyrir kjörbörnin að upplifa þetta sama. Mörg þeirra koma langt að og breytingarnar sem gerðar eru með þessu frv. á tvennum lögum sem varða lífeyrisstöðu þeirra eru afskaplega mikilvægar.

Ég vil svo, herra forseti, þakka heilbr.- og trn. fyrir það hversu fljótt og vel hún vann þetta frv. og tel að hér sé verulegum áfanga náð í að bæta réttarstöðu kjörforeldra og kjörbarna. Hins vegar vil ég að það komi líka fram að það er ýmislegt fleira sem enn þarf að breyta. Vil ég rifja það upp að hæstv. dómsmrh. lýsti því yfir 18. apríl 1994 að það hillti undir lok endurskoðunar ættleiðingarlaganna. Það er mjög brýnt að henni ljúki því að fyrr er ekki hægt að staðfesta svokallaðan Haag-sáttmála um ættleiðingu barna en á meðan að hann hefur ekki verið samþykktur dregur úr möguleikum íslenskra foreldra að ættleiða börn erlendis frá.

Því miður kom það fram í skriflegu svari við fyrirspurn frá mér að sifjalaganefnd hefur ekki sinnt þessu sem skyldi. Hún hefur haldið fáa fundi um málið og dregið hefur úr fundahöldum hennar um það. Ef hæstv. dómsmrh. væri í salnum mundi ég brýna hann til dáða í þessu máli en verð að sætta mig við að gera það síðar.

Ég vil að lokum ítreka þakkir mínar til hv. heilbr.- og trn. fyrir starf hennar að þessu máli.