Endurskoðun á meiðyrðalöggjöfinni

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 17:54:05 (1387)

1995-11-28 17:54:05# 120. lþ. 42.12 fundur 167. mál: #A endurskoðun á meiðyrðalöggjöfinni# þál., JónK
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[17:54]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Það verða aðeins örfá orð af minni hálfu inn í umræðuna því hv. 1. flm. hefur gert grein fyrir þeirri tillögu sem hér er til umræðu. Ég legg áherslu á nokkur atriði varðandi flutning þessa máls. Það er skoðun flutningsmanna að það að hreyfa tillögunni og láta fram fara þessa endurskoðun sé til góðs. Það sé til góðs bæði fyrir þá einstaklinga sem eiga á hættu að verða fyrir ærumeiðingum og það sé ekki síður til góðs fyrir þá sem vinna að fjölmiðlun í landinu að það sé skýrt og klárt og í samræmi við þá tíma sem við lifum á hver ábyrgð manna er báðum megin.

Auðvitað er ekki því að neita að þær tækniframfarir sem orðið hafa í fjölmiðlun eru ofarlega í huga og t.d. hvað Internetið varðar er hægt að dreifa þar efni með áhrifamiklum hætti. Ég hef engar væntingar um það og engan áhuga á því að það verði komið einhvers konar ritskoðun á Internetið. Ég ímynda mér ekki að það verði og hef ekki áhuga á því. Hins vegar verður að vera ljóst hvort og hvar menn geta leitað réttar síns sem verða fyrir ærumeiðingum á þennan hátt.

Í fjölmiðlun í landinu gilda ákveðnar reglur. Það gilda ákveðnar reglur um ábyrgðarmenn og ábyrgð fjölmiðlamanna. Blaðamenn hafa sett sér ákveðnar siðareglur í þessu efni og hafa siðanefnd þó auðvitað séu dómar þeirrar nefndar umdeildir eins og dómar í þjóðfélaginu almennt. Ég þekki örlítið til starfa siðanefndarinnar vegna þess að ég átti sæti í henni um skeið fyrir nokkrum árum. Á þeim tíma sluppum við við stór áföll í þeim efnum þrátt fyrir nokkra dóma. En ég veit að dómar þeirrar nefndar hafa verið umdeildir. Eigi að síður er þó tilvist hennar til marks um að fjölmiðlamenn vilja setja sér ákveðnar leikreglur í þessum efnum.

Þessi tillaga er ekki tilkomin vegna þess að flutningsmenn vilji koma á nokkurs konar ritskoðun í landinu, það er langt því frá. Við erum talsmenn skoðanafrelsis og ritfrelsis sem er reyndar, eins og hv. 8. þm. Reykv. kom inn á, bundið í stjórnarskrá og við viljum varðveita það. Það verður best varðveitt með nútímalegri og ljósri löggjöf. Eins og hv. 13. þm. Reykv. kom inn á hafa dómar verið æðiumdeildir í meiðyrðamálum. Það kann að benda til að það veiti ekki af að skýra og endurskoða þessa löggjöf sem er orðin yfir hálfrar aldar gömul.

Ég tek undir það með hv. 8. þm. Reykv. að við viljum ekki nálgast þetta mál með neikvæðum hætti fyrir tjáningarfrelsi í landinu. Það er langt því frá. Við vonum að það verði til góðs að hreyfa málinu. Ef af þeirri endurskoðun verður sem tillagan gerir ráð fyrir þá verði það til góðs fyrir tjáningarfrelsi í landinu sem er undirstaða lýðræðisþjóðfélagsins sem við lifum í.