Endurskoðun á meiðyrðalöggjöfinni

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 17:59:53 (1388)

1995-11-28 17:59:53# 120. lþ. 42.12 fundur 167. mál: #A endurskoðun á meiðyrðalöggjöfinni# þál., Flm. DSigf
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[17:59]

Flm. (Drífa Sigfúsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem málið fær hér. Ég vil leiðrétta hv. 8. þm. Reykv., Svavar Gestsson, vegna þeirra orða hans að hér væri um að ræða tilhneigingu til ritskoðunar. Þvert á móti. Enda tók ég það sérstaklega fram að það væri alls ekki vilji flutningsmanna, langt því frá. Hins vegar eru ákveðnir varnaglar nauðsynlegir.

Eins og flutningsmenn hafa rakið er mjög mikilvægt að þegar farið verði í endurskoðun á þessum lögum þá komi að málinu aðilar beggja sjónarmiða. Ég er sannfærð um að það er eitthvað mikið bogið við löggjöf þar sem dómar verða með jafnmisvísandi hætti og kom fram í máli hv. 13. þm. Reykv. Það hlýtur að vera eitthvað að löggjöf sem er svo óskýr að dómar falla með mismunandi hætti, þótt lögin séu svipuð. Það sýnir að full ástæða er til þess að endurskoða lögin, enda hafa t.d. fréttamenn oft komið fram á liðnum árum með rök fyrir nauðsyn þess. Og það er kannski meginþátturinn, þótt Internetið hafi verið talsvert til umræðu að undanförnu. Og vissulega er mikilvægt fyrir okkur að hafa þar góða löggjöf. Við getum víst öll verið sammála um að frelsi fjölmiðla hefur aukist til muna. Einkalíf fólks fær meiri umfjöllun en áður var, almenningur vill hafa fjölmiðlana opnari og slíkar fréttir njóta mikilla vinsælda. Þar hafa fjölmiðlarnir komið til móts við óskir þeirra sem kaupa blöðin. Ef við skoðum blöð í dag er alveg ljóst að efni þeirra er mun fjölbreyttara en það var fyrir 55 árum.

E.t.v. hreyfir þessi þáltill. við þeim aðilum sem ættu, að mínu mati, að vera búnir að skoða þetta mál. Eins og fram kom í máli hv. 8. þm. Reykv. hefur það verið flutt hér áður og kannski er eðlilegt að þeir aðilar sem unnið hafa við þessi verkefni, ritstjórar og fréttamenn sem eru einmitt gjarnan í stétt alþingismanna, hafi verið mjög meðvitaðir um báðar hliðar þessa máls.

Ef þannig tekst til að meiðyrðalöggjöfin verði endurskoðuð, finnst mér að það ætti að vera í samhengi við endurskoðun prentlaga og útvarpslaga. Spurning er hvort það eigi ekki að vera ein löggjöf sem tekur til allrar tjáningar. Þar er kominn nýr vettvangur, margmiðlunarfyrirtæki sem ég tel að séu mjög af hinu góða, og ég tel óhugsandi að nokkrum manni detti í hug að fara að ritskoða það sem þar fer fram. Ég tel mjög mikilvægt að svo verði ekki. Hins vegar eru einhver efri mörk á því hve langt megi ganga. Það held ég að allir sjái.

Ég tel mjög mikilvægt að við endurskoðunina verði reynt að afnema sem flest grá svæði þannig að fréttamenn og aðrir sem tjá sig á opinberum vettvangi geti gert það af meira öryggi. Mikilvægast er þó að endurskoðunin eyði réttaróvissu og þar sé í hvívetna þess gætt að ekki komi til skerðingar á tjáningarfrelsi.