Réttindi og skyldur ábyrgðarmanna fjárskuldbindinga einstaklinga

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 18:06:08 (1390)

1995-11-28 18:06:08# 120. lþ. 42.13 fundur 168. mál: #A réttindi og skyldur ábyrgðarmanna fjárskuldbindinga einstaklinga# þál., Flm. DSigf
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[18:06]

Flm. (Drífa Sigfúsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um réttindi og skyldur ábyrgðarmanna fjárskuldbindinga. Meðflm. mínir eru hv. alþm. Magnús Stefánsson og Ísólfur Gylfi Pálmason og ég vil, með leyfi virðulegs forseta, fá að lesa upp þessa tillögu ásamt greinargerð:

,,Alþingi ályktar að fela viðskiptaráðherra að skipa nú þegar nefnd til að semja frumvarp til laga um réttindi og skyldur ábyrgðarmanna fjárskuldbindinga einstaklinga.

Greinargerð: Á undanförnum árum hafa fjölmörg mál vakið upp spurningar um réttindi og skyldur ábyrgðarmanna fjárskuldbindinga. Mest áberandi eru kvartanir í málum þar sem skuldari fær lán sem er hærra en skuldarinn er fær um að ráða við miðað við óbreyttar aðstæður. Einnig eru fjölmörg dæmi um mál þar sem aðstæður skuldara hafa breyst, svo sem vegna veikinda eða atvinnuleysis.

Mjög mikilvægt er fyrir ábyrgðarmenn að upplýsingaskylda lánveitenda sé rík þannig að mönnum sé ljóst hvað þeir eru að takast á hendur. Áríðandi er að upplýsingablöð fyrir neytendur liggi frammi í bönkum þar sem m.a. ýmis hugtök eru skýrð, upplýsingar veittar um ábyrgð sem fylgir undirskrift ábyrgðarmanna og hvað beri að forðast. Það er sorglegt þegar fólk missir aleiguna eftir að hafa skrifað upp á fyrir ættingja, vin eða kunningja. Augljóst er að margt af þessu fólki hefur ekki gert sér fullkomlega grein fyrir afleiðingunum. Ábyrgðarmenn ættu að eiga rétt á upplýsingum um fjárhagsstöðu skuldara og möguleika þeirra til að standa við skuldbindingar sínar.

Í Finnlandi hafa verið samþykkt lög sem fjalla um ríka upplýsingaskyldu gagnvart ábyrgðarmönnum og bann við ákveðnum ábyrgðarsamningum.

Í Noregi hefur verið unnið frumvarp til laga um skuldbindingar ábyrgðarmanna og tryggingar vegna veðsetningar þriðja manns. Þar er um að ræða vernd fyrir ábyrgðarmenn, svo sem upplýsingaskyldu fyrir gerð samnings, hvert sé innihald samnings, um skyldu til að vara ábyrgðarmenn við breytingum á samningi, um bann við því að tryggingu sé vikið til hliðar, niðurfellingu ábyrgðar og tryggingu sem ábyrgðarmaður getur tekið, hvenær hægt sé að ganga að ábyrgðarmanni o.fl.

Með því að tryggja í lögum vernd fyrir ábyrgðarmenn er um leið verið að stuðla að því að gætt sé hófs í lánveitingum til skuldara sem illa ráða við skuldbindingar sínar. Þá mun aukin upplýsingaskylda vonandi draga úr óþarfa neyslulánum og því verka sem fyrirbyggjandi ráðstöfun gegn of mikilli skuldasöfnun.``

Herra forseti. Það er örugglega ekki óalgengt að ábyrgðarmaður líti á undirskrift sína sem nauðsynlegt formsatriði til þess að hægt sé að veita lántakanda lán, líkt því og verið sé að votta rétta undirskrift. Og kannski setur lánveitandinn þetta einnig þannig fram í einstaka tilfellum. Allt of margir skrifa upp á fyrir vini og kunningja af því að þeim þykir óþægilegt að neita. En sú staðreynd er óhagganleg að ábyrgðarskuldbindingar eru loforð um að borga skuld fyrir einhvern annan ef sá borgar ekki. Það eru til ólíkar tegundir ábyrgðarskuldbindinga. Við einfalda ábyrgð þarf ábyrgðarmaður ekki að inna greiðslu af hendi nema lánveitandi hafi árangurslaust reynt að fá skuldina greidda hjá skuldara. Lánveitandi getur aftur á móti krafið um greiðslu hvern þann sem hann velur sjálfur ábyrgðarmann ef lánið kemst í vanskil. Ábyrgðarmaður hefur þá gengist í ábyrgð eins og hann væri skuldari lánsins. Ef um er að ræða allsherjarábyrgð tekur ábyrgðarmaður á sig ábyrgð á öllum skuldbindingum lánara, nú og í framtíðinni. Að mínu mati ætti svo umfangsmikil ábyrgð að vera óheimil í viðskiptum neytenda við lánastofnanir.

Það er mikilvægt fyrir ábyrgðarmenn að vita að lánveitandi getur krafið einn ábyrgðarmann um alla skuldina, jafnvel þótt tveir ábyrgðarmenn séu að láni, svo framarlega sem ábyrgð er ekki takmörkuð. Ekki er hægt að segja upp ábyrgð ef lánveitandi gefur ekki samþykki sitt fyrir því. Þetta á einnig við þótt einkahagir ábyrgðarmanns breytist, t.d. ef hann skilur við skuldara eða slítur sambúð við hann. Ábyrgðarmaður gerir sennilega oft ráð fyrir því að lánveitandi hafi metið greiðslugetu lántakanda til að sjá hvort fjárhagur hans ráði við greiðslu af láninu og ábyrgðin sé því einungis aukatrygging fyrir lánveitandann. En lánveitandi þarf ekki að meta greiðslugetu lántakenda og skuldari getur því verið á barmi gjaldþrots. Stór vandamál geta síðan komið upp þegar ábyrgðarmaður þarf að standa við skuldbindinguna og þegar verst lætur getur hann jafnvel þurft að selja húsnæði sitt. En jafnvel áreiðanlegur einstaklingur getur orðið veikur, atvinnulaus eða dáið og þá er hætta á að ábyrgðarmaður þurfi að greiða lánið.

Auðvitað ætti það að vera þannig að fjárhagsstaða lántakanda sé það sem ræður úrslitum um það hvort lán sé veitt eða ekki. Það er eðlileg krafa að lánveitandi geri greiðslumat á fjárhagsstöðu lántakanda. Ef lánveitandi óskar að tryggja sig enn frekar með ábyrgðarmönnum á láninu ætti það að vera regla að greiðslugeta þeirra sé einnig metin. Ábyrgðarmaður þarf að vera fjársterkur aðili sem hefur fjárhagslegt svigrúm til að greiða skuld ef til þess kemur. Jafnframt ætti lánveitandinn að tryggja að ábyrgðaraðili skilji hvað það þýði að gangast í ábyrgð og ábyrgðarmaður fái upplýsingar um það eins fljótt og auðið er, ef hætta er á að ganga þurfi í ábyrgð hans. Það má nefna að í Svíþjóð getur ábyrgðarmaður farið fram á að falla frá ábyrgð ef lánveitandi hefur ekki gert greiðslumat eða látið hjá líða að gefa nauðsynlegustu upplýsingar er varða ábyrgðina.

Norskir viðskiptabankar lentu í talsverðum erfiðleikum fyrir nokkrum árum eins og reyndar margir aðrir bankar. Ástæðan var m.a. sú að bankarnir höfðu verið mjög viljugir að lána. Skuldarar stóðu hins vegar ekki undir væntingum og það lenti á ábyrgðarmönnunum að greiða skuldirnar. Með norska lagafrv. verður reynt að tryggja að gætt sé hófs í lánveitingum með ábyrgðarmönnum og þeir séu betur upplýstir um hvað skuldbindingin hefur í för með sér. Með þessu er betur tryggt að menn gerist ekki ábyrgðarmenn nema þeir standi undir skuldbindingunum sem hlýtur að vera hagur lánastofnana.

Við þekkjum öll dæmi þess að lánastofnun hafi lánað fé til skuldugra einstaklinga sem ekki standa í skilum og síðan er gengið að ábyrgðarmönnum. Eðlilegra væri hins vegar að lánastofnun miðaði útlán sín fyrst og fremst við fjárhagsstöðu lánþega. Hver er ábyrgð lánastofnunar sem lánar einstaklingi sem er stórskuldugur og vitað er að viðkomandi getur ekki á nokkurn hátt staðið í skilum? Því má halda fram með nokkrum rökum að slík lánastofnun treysti á að ábyrgðarmennirnir greiði skuldina, jafnvel þótt ábyrgðarmönnum hafi verið ókunnugt um áhættu sína.

Virðulegi forseti. Á síðustu árum hafa bankar og sparisjóðir aukið mjög þjónustu við neytendur. Auðveldara er að fá upplýsingar um margvíslega þjónustu sem veitt er, hvað hún kostar. Og ábyrgðarmenn fá einnig að fylgjast með ef greiðslufall verður, t.d. á skuldabréfi. Að frumkvæði Neytendasamtakanna var stofnuð úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Þangað geta neytendur leitað sem telja að brotið sé á sér í samskiptum við fjármálafyrirtæki. Engu að síður er mikilvægt að ábyrgðaraðili skuldbindinga eignist lagalegan rétt til þess að vera upplýstur um rétt sinn og skyldur. Íslensk heimili eru allt of skuldug og það þarf að gera fyrirbyggjandi ráðstafanir til að leysa þann vanda, m.a. með ráðgjöf, greiðslumati og greiðsluaðlögun. Að þessum verkefnum er nú unnið undir forustu hæstv. félmrh., Páls Péturssonar. Ég vænti mikils árangurs af þeim störfum.

Að lokum vil ég vekja athygli á máli sem DV tók fyrir núna á miðvikudaginn þar sem nokkrir ábyrgðarmenn kærðu starfsmenn Íslandsbanka, þar sem Seðlabanki telur að málið sé ámælisvert. Mér sýnist að þetta mál ásamt mjög mörgum öðrum beri þess vitni að það sé nauðsynlegt að taka á þessu máli með samsvarandi hætti og löggjafinn hefur gert í Finnlandi og verið er að vinna að í Noregi. Það hefur einnig verið leyst úr þessum málum bæði í Svíþjóð og í Danmörku með annars konar samstarfi, samráði eða með reglu.

Herra forseti. Ég vonast til að þingmenn telji að málið sé þarft og það fái eðlilega málsmeðferð. Ég legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. efh.- og viðskn.