Réttindi og skyldur ábyrgðarmanna fjárskuldbindinga einstaklinga

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 18:32:23 (1396)

1995-11-28 18:32:23# 120. lþ. 42.13 fundur 168. mál: #A réttindi og skyldur ábyrgðarmanna fjárskuldbindinga einstaklinga# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[18:32]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar efnisatriðið sem fram kom í andsvarinu, um rangar upplýsingar lántakanda til ábyrgðarmanns, þá held ég að málin hljóti að vera þannig vaxin, án þess að ég hafi aðgætt löggjöfina, að óheimilt sé að veita rangar upplýsingar. Við getum ekki sett lög þar fyrir utan sem banna að veita rangar upplýsingar. Ef menn veita rangar upplýsingar þá gera þeir það vísvitandi. Þar af leiðandi hlýtur það að vera rangt og ég vænti þess að það sé ólöglegt. Þannig að ef til ábyrgðar er stofnað með röngum upplýsingum vænti ég þess að löggjöf sé þannig núna að hún fellur úr gildi ef hægt er að hnekkja henni. Ef ekki, þá er auðvitað eðlilegt að þetta sé eitt af þeim ákvæðum sem menn setja í löggjöf.

Hvað varðar önnur atriði sem fram hafa komið þá vil ég rifja upp fyrir flm. það sem stendur í 4. línu grg. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Einnig eru fjölmörg dæmi um mál þar sem aðstæður skuldara hafa breyst, svo sem vegna veikinda eða atvinnuleysis``.

Þannig að þetta er vissulega þarna eins og ég gat um í minni ræðu. Ég vil segja um þetta mál eins og ég sagði í ræðunni að ég er því ekki andvígur að menn skoði löggjöfina um réttindi og skyldur ábyrgðarmanna. En ég vildi að hún væri skoðuð frá öðru sjónarhorni en mér fannst umræðurnar gefa til kynna, þ.e. að firra ábyrgðarmanninn ábyrgð sinni. Vissulega eru til dæmi um það sem vert væri að tryggja ábyrgðarmann fyrir eins og hugsanlegum samningum milli skuldara og banka um breytingar á skuldinni sem ábyrgðarmaðurinn hefur gengist í ábyrgð fyrir. En það ætti ekki að gerast nema að hann samþykki.