Réttindi og skyldur ábyrgðarmanna fjárskuldbindinga einstaklinga

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 18:36:32 (1398)

1995-11-28 18:36:32# 120. lþ. 42.13 fundur 168. mál: #A réttindi og skyldur ábyrgðarmanna fjárskuldbindinga einstaklinga# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[18:36]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég dreg ekkert úr því að það sé réttmætt að hafa í löggjöf ef það er ekki nú þegar, ákvæði sem gera ábyrgðaraðila kleift að losna undan ábyrgðinni ef til hennar er stofnað á sannanlega röngum forsendum og sá sem beiðist hennar hefur fengið hana með því að veita rangar upplýsingar. Ég þekki ekki þessa löggjöf en mér heyrist á flm. að hann telji að ekkert lagaákvæði tryggi það að menn losni undan ábyrgðinni við þessar aðstæður. Hins vegar vil ég segja að mér líst jafnilla á það og áðan að færa ábyrgðina á upplýsingagjöf eða upplýsingaöflun frá ábyrgðarmanni til bankans. Ég get ekki séð hvernig menn ætla með sanngjörnum hætti að gera bankann ábyrgan fyrir því að ábyrgðarmaður fái þær upplýsingar sem hann vill fá. Ég tel að þetta eigi að vera milliliðalaus viðskipti lántakanda og ábyrgðarmanns. Sá sem biður um ábyrgðina verður að veita ábyrgðarmanni allar þær upplýsingar sem hann vill fá. Ef hann gerir það ekki á hann það alltaf á hættu að hinn neiti að veita ábyrgð. Þannig finnst mér að hlutirnir eigi að vera. Það á ekki að draga þriðja aðila inn í málið en það held ég að geri ekkert annað en að flytja ábyrgðina frá þeim sem á að veita hana til bankans. Mér finnst að menn megi ekki tala í þá veru að draga úr þeirri ábyrgð sem menn eru að gangast í.