Kaup og rekstur skólabáts

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 19:06:42 (1404)

1995-11-28 19:06:42# 120. lþ. 42.15 fundur 169. mál: #A kaup og rekstur skólabáts# þál., AnnJ
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[19:06]

Anna Jensdóttir:

Hæstv. forseti. Ég lýsi yfir ánægju minni með þáltill. og ég styð hana heils hugar. Sem íbúi í sjávarþorpi og kennari í grunnskóla fylgdist ég með starfsemi skólaskipsins Mímis og sérstaklega þeim væntingum sem nemendurnir í sjóvinnunáminu gerðu til þess að komast um borð í skipið og njóta þeirrar kennslu sem þar fór fram. Fyrstu kynni mín af vísi að skólaskipi voru snemma á 8. áratugnum vestur á Patreksfirði þegar landsþekktur skipstjóri og aflakló, Jón Magnússon, bauð unglingum á staðnum alfarið á eigin kostnað upp á að komast á sjó og fara á handfæri og kynnast þannig sjómennsku af eigin raun. Ég veit að margir núverandi sjómenn okkar á Patreksfirði og víðar fóru þar sína fyrstu sjóferð.

Ég endurtek ánægju mína með þessa tillögu og vona að hún fái skjótan framgang því að ekki veitir okkur af að glæða áhuga ungs fólks á sjómennsku og menntun sjómanna því að á því lifum við í dag.