Kaup og rekstur skólabáts

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 19:07:50 (1405)

1995-11-28 19:07:50# 120. lþ. 42.15 fundur 169. mál: #A kaup og rekstur skólabáts# þál., Flm. KPál
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[19:07]

Flm. (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég þakka undirtektir við þessa þáltill. og sérstaklega hv. þm. Önnu Jensdóttur sem situr á þingi meðal okkar og kemur úr sjávarplássi. Guðmundur Hallvarðsson er lærður sjómaður og hefur kynnst sjómennsku. Það sýnir kannski hvað málefni sjómanna eiga oft lítinn hljómgrunn hvað fáir eru í salnum til að taka þátt í umræðu um svo stórmikilvægt mál eins og að mennta íslensku þjóðina til að stunda sjó.

Ég kynntist sjómennsku frá barnæsku og veit því að sjómennska er mjög áhættusamt starf. Ég hef sjálfur lent í því að slasast og veit hvað oft er erfitt að átta sig á því hvernig hlutirnir gerast. Eins og margir aðrir sjómenn fékk ég þegar ég ólst upp tækifæri til þess að fara með reyndum mönnum til sjós á litlum bátum og fá forsmekkinn að því hvernig þetta er.

Nú er þetta að mestu leyti lagt af eins og kom fram í greinargerðinni og er það af ýmsum ástæðum. Skip hafa stækkað, minni bátum hefur fækkað og sjóróðrar hafa því breyst mjög mikið. Allt er að breytast hvað varðar þessa sjósókn annað en það að þjóðin lifir á því sem er veitt úr sjónum. Það hefur ekki breyst. Það mun sýnilega ekki breytast enda möguleikarnir í kringum Ísland óþrjótandi og það sem er skemmtilegt við þann mikla þrótt sem er í íslenskum sjávarútvegi er að íslenskir útvegsmenn sækja til fjarlægra landa til að sækja nýjar útgerðir og gera út enn víðar en nokkru sinni fyrr.

Á flestum þessum skipum eru íslenskir stjórnendur en samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið frá skólastjóra Stýrimannaskólans í Reykjavík er mjög lítil eftirsókn í nám í skólanum sem ég held að hljóti að vera öllum þeim áhyggjuefni sem stunda útgerð og hugsa um það hvernig við komum til með að afla og nýta auðlindir okkar lands ef við eigum ekki fullmenntaða sjómenn. Við þurfum líka að eiga skóla sem getur boðið upp á það besta sem þekkist í sjómennsku, í stjórnun skipa og almennt því sem lýtur að sjó.

Á það hefur skort stundum að hið háa Alþingi sé nógu vel vakandi fyrir því að hugsa um hag sjómannastéttarinnar, tengja allt nám í grunnskólum strax við sjóinn til að fólk kynnist því strax frá barnæsku úr skólabókum og eins beinlínis í námi sínu hvernig sjómennskan hefur þróast og hvað það þýðir að vera sjómaður.

Ég þakka fyrir umræðurnar og ég vænti þess að við sjáum útkomu úr þessu máli í vor.