Afnám mismununar gagnvart konum

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 13:37:49 (1410)

1995-11-29 13:37:49# 120. lþ. 43.2 fundur 55. mál: #A afnám mismununar gagnvart konum# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[13:37]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Samningur um afnám allrar mismununar gegn konum öðlaðist gildi gagnvart Íslandi 18. júlí 1985. Samningurinn er almennt orðaður en þar eru afmörkuð þau viðfangsefni sem vinna þarf að. Markmmiðin eru sett en leiðirnar eru því miður ekki vel varðaðar. Það er því nokkuð á valdi sérhvers aðildarríkis að velja til hvaða aðgerða er gripið til þess að stuðla að jafnrétti í anda samningsins.

Almennt má segja að íslensk löggjöf sé í samræmi við ákvæði samningsins og rétt er að benda á að árið 1976 voru jafnréttislög sett hér á landi. Jafnréttislögin voru endurskoðuð árið 1985, sama ár og samningurinn var fullgiltur af Íslands hálfu. Núgildandi jafnréttislög eru frá 1991. Við endurskoðun jafnréttislaganna hefur samningurinn verið hafður til hliðsjónar.

Í undirbúningi ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna sem haldin var í Peking í september sl. kom fram að íslenskar konur búa við einhver bestu lagaleg skilyrði sem þekkjast. Samkvæmt lögum ríkir almennt jafnræði milli kynja. En því er ekki að neita að þrátt fyrir það hallar á konur á ýmsum sviðum. Þar má nefna launamisrétti milli kynjanna þrátt fyrir lög um launajöfnuð. Það er vilji íslenskra stjórnvalda að gera það sem í okkar valdi stendur til að eyða þessum mun.

Samningurinn um afnám allrar mismununar gagnvart konum kemur því miður að litlu gagni við lausn þessa vanda. Ákvæðið um launjöfnuð í lögum um jafna stöðu kvenna og karla, nr. 28/1991, eru ítarlegri og gang alengra en sambærileg ákvæði samningsins.

Í öðru lagi. Til þess að knýja á um úrbætur í jafnréttismálum leggur félmrh. á fjögurra ára fresti fram áætlun til þingsályktunar. Nú er í gildi framkvæmdaáætlun sem Alþingi samþykkti í maí 1993 og gildir til ársloka 1996. Á þessu þingi mun verða lögð fram ný framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að koma á jafnrétti kynjanna.

Í þriðja lagi. Fyrsta skýrslan frá Íslandi um framkvæmd CEDAW-samningsins var send nefndinni 4. maí 1993. Umfjöllun hennar nær fram til ársloka 1991 og inniheldur einnig efni bráðabirgðaskýrslunnar sem skila átti ári eftir gildistöku samningsins. Skýrslan hefur verið til umfjöllunar hjá CEDAW-nefndinni og mun verða rædd á nefndarfundi í New York í janúar 1996 þar sem fulltrúar Íslands munu sitja fyrir svörum. Frá því að skýrslan var skrifuð hafa orðið nokkrar breytingar á stöðu kvenna hér á landi. Íslenskum stjórnvöldum hefur boðist að bæta við nýjum upplýsingum og það mun verða gert þegar fjallað hefur verið um skýrsluna af CEDAW-nefndinni.

Í fjórða lagi. Undirbúningi er þannig háttað að utanrrn. óskar eftir dögum að skýrslu frá félmrn. Skýrsludrög félmrn. eru byggð á drögum sem eru samin af Jafnréttisráði.

Í fimmta lagi. Í svari við fjórðu spurningunni kemur fram að drög félmrn. að skýrslu um framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna byggja á drögum frá Jafnréttisráði. Eins og kunnugt er eiga sæti í Jafnréttisráði fulltrúar ýmissa félagasamtaka, t.d. ASÍ, BSRB, VSÍ, Kvenréttindafélags Íslands og Kvenfélagasambands Íslands.

Í sjötta lagi. Utanrrn. gaf samninginn út í bæklingi ásamt með mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna í febrúar 1995. Bæklingurinn kom út í 2.000 einstökum og var honum dreift endurgjaldslaust til félaga sem einstaklinga. Hann var einnig sendur til skóla á framhaldsskólastigi. Upplagið er nú á þrotum hjá utanrrn. en vegna mikillar eftirspurnar er unnið að endurútgáfu. Gerð bæklingsins var þáttur í undirbúningi íslenskra stjórnvalda vegna ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna sem haldin var í haust í Peking.