Afnám mismununar gagnvart konum

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 13:48:16 (1415)

1995-11-29 13:48:16# 120. lþ. 43.2 fundur 55. mál: #A afnám mismununar gagnvart konum# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[13:48]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það er rétt að skýrslunni var ekki skilað með þeim hætti upphaflega sem ætlast var til og það eru mistök sem ég hef ekkert verið að kafa mikið ofan í, enda skiptir það kannski ekki neinu meginmáli heldur að við stöndum rétt og eðlilega að þessu máli framvegis og skilum þeim skýrslum sem við eigum að gera og tökum þátt í umræðum. Það er m.a. okkar framlag í jafnréttisbaráttu í heiminum. Ef Íslendingar eru stoltir af því jafnrétti sem hér er, er mikilvægt að þeir láti það koma fram annars staðar. Ég vil hins vegar benda á það vegna þess sem hér hefur verið sagt að jafnrétti verði ekki tryggt með lögum, þótt ekki sé ekki hægt að ræða jafnréttismál í víðri merkingu í fyrirspurnatíma á Alþingi, við hljótum að gera það þegar jafnréttisáætlunin kemur fram. Þótt við teljum okkur mikilvæg á Alþingi og við getum sett ýmsa löggjöf, þá eru það skilaboð sem mega ekki koma frá þessari stofnun að það eitt skipti máli að setja nákvæm lög um þessa hluti. Stundum finnst mér umræður stjórnmálamanna vera með þeim hætti að það eina sem til þurfi sé að setja lög um hitt og þetta og þá sé lífsgátan ráðin. Þannig er það ekki.

Hvað kvennaráðstefnuna varðar hafa íslensk stjórnvöld, utanrrn., boðað til norrænnar ráðstefnu sem hefst á morgun og fjallar um það hvernig yfirlýsingu kvennaráðstefnunnar verður fylgt eftir. Ég vænti þess að stjórnmálaflokkarnir taki virkan þátt í þeirri ráðstefnu og leggi sitt af mörkum til þess að marka þar stefnu fyrir framtíðina. Þangað er öllum boðið. Ég vonast til þess að sem flestir mæti þar og taki þátt í umræðum, en stundum skortir á að nægilega margir sýni raunverulegan áhuga á málum sem þessum, en ég efast ekki um að svo verður í þetta skiptið.