Habitat-ráðstefnan 1996

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 13:52:03 (1417)

1995-11-29 13:52:03# 120. lþ. 43.3 fundur 91. mál: #A Habitat-ráðstefnan 1996# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi KÁ
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[13:52]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Á undanförnum árum hafa Sameinuðu þjóðirnar staðið fyrir nokkrum stórum ráðstefnum um viðamikil mál sem snerta heimsbyggðina alla. Sem dæmi má nefna umhverfisráðstefnuna í Ríó 1992, mannréttindaráðstefnuna í Vín 1993, mannfjöldaráðstefnuna í Kaíró 1994 og svo loks félagsmálaráðstefnuna í Kaupmannahöfn og kvennaráðstefnuna í Kína á þessu ári.

Flestar þessar ráðstefnur hafa vakið mikla athygli og á þeim hafa verið gerðar merkar samþykktir sem eiga eftir að hafa mikil áhrif á allt umhverfi okkar og samfélög.

Undirbúningur og þátttaka Íslands hefur verið með ýmsu móti, en að mínum dómi hefur t.d. Alþingi ekki fylgst nægilega vel með þessum ráðstefnum sem snerta löggjafann að ýmsu leyti. Þingmenn fóru sem fulltrúar á umhverfsráðstefnuna í Ríó og kvennaráðstefnuna í Kína, en því miður hafa þeir ekki sótt aðrar þessar ráðstefnur svo að ég viti.

Við urðum þess vör að undirbúningurinn undir Kaíró-ráðstefnuna, sem þótti marka þáttaskil í starfi Sameinuðu þjóðanna og gerði mjög merkar samþykktir, var allur í skötulíki af Íslands hálfu og undirbúningurinn undir kvennaráðstefnuna fór seint af stað þótt framlag Íslands væri þar til sóma.

Nú er fram undan ráðstefna um þróun byggðar sem haldin verður í Istanbúl í júní á næsta ári og mig fýsir að vita hvernig íslensk stjórnvöld hyggjast standa að undirbúningi þeirrar ráðstefnu. Því spyr ég hæstv. utanrrh.:

Hvernig verður háttað undirbúningi og þátttöku Íslands fyrir ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um þróun byggðar, Habitat, í Istanbúl árið 1996?