Mengun af brennisteinssamböndum

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 14:02:32 (1422)

1995-11-29 14:02:32# 120. lþ. 43.4 fundur 78. mál: #A mengun af brennisteinssamböndum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[14:02]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegi forseti. Ísland er aðili að alþjóðlegum samningi um mengun sem berst um langan veg milli landa, samningi sem Alþingi staðfesti 1982 en upphaflega var hann gerður 1979. Markmið þessa samnings er að koma í veg fyrir skaðlega mengun sem berst um langan veg, þar á meðal mengun af völdum brennisteinssambanda og gera rannsóknir á því sviði. Á grundvelli þessa samnings hefur verið unnið af samningsaðilum og gerðar við hann einar fimm bókanir á grundvelli samningsins, sú fyrsta 1984 varðandi fjárhagslegar skuldbindingar og 1985 um losun brennisteinsdíoxíðs sem líka er kallað brennisteinstvíoxíð eða tvíildi eftir því hvernig menn þýða þetta hugtak efnafræðilega.

Síðan 1988 var um bókun að ræða varðandi köfnunarefnissambönd og 1991 um takmörkun á rokgjörnum lífrænum efnum og 1994 var gerð önnur bókun varðandi brennistein og mengun af völdum brennisteins á vegum samningsaðila.

Eins og ég gat um skrifaði Ísland undir þennan samning og Alþingi staðfesti hann fyrir einum 13 árum. En sannleikurinn er sá, að því er ég best veit, að Ísland hefur ekki gerst aðili að neinum af þeim bókunum sem ég gat um og unnar hafa verið á vegum samningsaðila og er það ástæðan fyrir því að hér er spurt um þau efni og þá sérstaklega að því er varðar losun á brennisteini. Ég tel það mikið áhyggjuefni í rauninni að íslensk stjórnvöld skuli ekki fylgja eftir alþjóðasamningum sem þau gerast aðilar að. Hér var raunar einn á dagskrá fyrr á þessum fundi, alþjóðlegur samningur sem Alþingi hafði staðfest og hér er um að ræða mengunarvald sem veldur víða áhyggjum. Vissulega er það svo að hér á landi hefur ekki verið um að ræða af manna völdum jafnmikla mengun af völdum brennisteins og víða annars staðar, en engu að síður ber okkur að standa við alþjóðlegar skuldbindingar og leggja okkar af mörkum í þeim efnum. Það er alveg ljóst að hér erum við að standa að aðgerðum og fyrir Alþingi liggur m.a. frv. um stækkun á verksmiðju við Straumsvík sem veldur mjög mikilli aukningu á losun brennisteinsdíoxíðs og fleira kann á eftir að fylgja, fyrir utan það sem stafar af öðrum atriðum, brennslu á eldsneyti í bílum og í öðru skyni.

Ég spyr því hæstv. ráðherra um það hvað því valdi að ekki skuli hafa verið af hálfu stjórnvalda orðið við tilmælum sem komið hafa frá sérfræðistofnunum eins og Hollustuvernd ríkisins um það að athuga beri um staðfestingu á bókunum við þennan samning.