Varnir gegn mengun sjávar

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 14:22:57 (1427)

1995-11-29 14:22:57# 120. lþ. 43.5 fundur 170. mál: #A varnir gegn mengun sjávar# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[14:22]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Hv. þm. hefur borið fram fyrirspurn sína á þskj. 170 og gert grein fyrir henni sem hljóðar svo:

,,Hyggst ráðherra beita sér fyrir afnámi þeirra ákvæða í lögum nr. 32/1976, um varnir gegn mengun sjávar, sem heimila ráðherra að leyfa m.a. að skipsflökum sé sökkt í sjó, í framhaldi af undirritun samnings um endurskoðun Norðaustur-Atlantshafsins í París 1992?``

Í lögum nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar, er lögfest sú meginregla að allt úrkast í hafið sé óheimilt. Jafnframt er kveðið á um að Siglingamálastofnun ríkisins, nú Hollustuvernd ríkisins eftir að mengunarvarnir sjávar fluttust yfir til þeirrar stofnunar 1. júní sl., sé heimilt að veita undanþágu frá þessu þannig að framkvæmd undanþágunnar er í raun í höndum Hollustuverndar ríkisins en ekki ráðherra samkvæmt þessum lögum.

Samkvæmt 13. gr. laganna er allt úrkast efna eða hluta í hafið óheimilt án leyfis Hollustuverndar ríkisins sem getur veitt leyfi til að kasta efnum eða hlutum í hafið og skal taka mið af eðli þeirra og magni og aðstæðum á losunarstað.

Sé um að ræða úrgang eða efni, önnur en dýpkunarefni sem verða til t.d. vegna hafnarframkvæmda eða annarra framkvæmda í sjó eða í hafi, sem hafa svo nokkru nemi efni þau sem upp eru talin í fylgiskjali 1 með lögunum skal eigi veita heimild til þess að kasta þeim í hafið nema í neyð enda sé heilsu manna ekki stofnað í hættu og engin önnur hagkvæm lausn sé fyrir hendi eða finnist.

Heimilt er án leyfis að kasta dýpkunarefnum í hafið nema í þeim séu í verulegum mæli, þ.e. meira en 0,1%, efni sem talin eru upp í fylgiskjali 2 með lögunum.

Áðurnefnt lagaákvæði byggir á þeirri forsendu að því aðeins komi til veitingar leyfis fyrir varpi í hafið hvort sem um er að ræða skip eða annan úrgang að umrædd förgun valdi ekki mengun.

Með bréfi dags. 26. sept. 1990 beindi umhvrn. þeim tilmælum til Siglingamálastofnunar ríkisins, sem fóru þá með mengunarvarnir sjávar, að heimild fyrir að sökkva skipum í sjó til förgunar yrði ekki nýtt og að öðruvísi yrði staðið að förgun. Frá því að bréfið er skrifað hefur aðeins einu skipi verið sökkt með leyfi hér við land og var um að ræða skip sem notað var til björgunaræfinga, þ.e. það er notað við köfun og annað því um líkt sem tengist þjálfun björgunarsveita. Á árunum 1980--1991 var hins vegar 10 stálskipum og 28 tréskipum sökkt hér við land. Þó að áðan kæmi fram í framsöguræðu hv. þm. að síðan 1994 hafi 234 skip verið úrelt vona ég að þetta séu samt réttar upplýsingar að þeim hafi ekki verið sökkt heldur hafi þeim verið eytt með öðrum hætti.

Við endurskoðun Óslóar- og Parísarsamningsins um varnir gegn mengun sjávar sem í daglegu tali er nefndur OSPAR-samningurinn, sem lauk með fundi umhverfisráðherra aðildarríkjanna í París í september 1992, var fjallað um varp skipa í hafið. Í samningnum sem fjallar um mengunarvarnir á Norðaustur-Atlantshafi er gert ráð fyrir því að aðildarríkin hætti eigi síðar en 31. des. 2004 að sökkva skipsflökum og flugvélum í sjó. Reyndar kom þetta fram hjá hv. þm. áðan. Jafnframt skrifuðu umhverfisráðherrar aðildarríkjanna undir yfirlýsingu um að hætta að sökkva flugvélum og skipsflökum eins fljótt og kostur væri.

Heildarendurskoðun laganna um varnir gegn mengun sjávar, nr. 32/1986, er nú í undirbúningi og mun væntanlega hefjast á næsta ári, þ.e. upp úr áramótum. Bind ég vonir við að endurskoðun verði lokið ekki seinna en á árinu 1997. Sú vinna getur auðvitað staðið fram eftir næsta ári. Ég mun að sjálfsögðu leggja á það áherslu við endurskoðunina í samræmi við áðurnefndan OSPAR-samning að þau ákvæði sem heimila varp í hafið verði endurskoðuð. Þar er ekki aðeins um skip og flugvélar að ræða heldur og aðra þætti sem nauðsynlegt er að breyta með hliðsjón af fenginni reynslu frá gildistöku laganna eða síðasta áratuginn.

Að lokum má svo aðeins minna á þátttöku íslenskra umhverfisyfirvalda og íslenskra stjórnvalda við að koma í veg fyrir að frægum olíuborpalli væri sökkt í sjó sem mikið var í umræðu fyrr á þessu ári.