Stuðningur við nemendur sem eiga í lestrarörðugleikum

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 14:34:37 (1431)

1995-11-29 14:34:37# 120. lþ. 43.6 fundur 181. mál: #A stuðningur við nemendur sem eiga í lestrarörðugleikum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SF
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[14:34]

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir):

Herra forseti. Fyrirspurn mín er til hæstv. menntmrh. og hún er svohljóðandi:

,,Hefur menntamálaráðuneytið markað stefnu um stuðning við nemendur á framhalds- og háskólastigi sem eiga í sértækum lestrarörðugleikum, öðru nafni lesblindu (dyslexíu)?``

Með lögum um framhaldsskóla, nr. 57/1988, varð sú breyting að allir nemendur sem höfðu lokið prófi úr 10. bekk grunnskóla öðluðust sjálfkrafa rétt til framhaldsskólanáms. Við það fjölgaði þeim nemendum í framhaldsskóla sem áttu við lesblindu eða önnur lestrarvandamál að stríða. Blindrabókasafn Íslands ber samkvæmt lögum að þjóna framhaldsskólanemum sem geta ekki fært sér í nyt venjulegt letur og í greinargerð með lögunum er sérstaklega minnst á nemendur sem haldnir eru dyslexíu sem einnig er nefnd sérstakir lestrarörðugleikar eða lesblinda. Framleiðsla Blindrabókasafns Íslands á námsefni miðaðist framan af nær eingöngu við þá nemendur á framhaldsskólastigi sem eru sjónskertir.

Árið 1988 jókst eftirspurn eftir námsefni á snældum fyrir lesblinda og hefur sú þróun haldið áfram með vaxandi hraða enda vísa námsráðgjafar skólanna skjólstæðingum sínum á safnið eins og þeim ber.

Á árinu 1987 nutu 10 nemendur þjónustu námsbókadeildar Blindrabókasafnsins en árið 1994 voru þeir yfir 100 talsins. Þessi aukna þjónusta hefur kallað á viðbótarstöðugildi hjá safninu. Fjárveiting til Blindrabókasafnsins hefur ekki verið í neinu samræmi við framangreinda þróun. Safnið sinnir lesblindum á eins ódýran og hagkvæman hátt og unnt er en kostnaður vegna lesblindra er um 1 millj. kr. á önn. Forráðamenn safnsins telja fjárhag þess stefna í hreinan voða og með áframhaldandi þróun þarf að draga úr framleiðslu hljóðbóka fyrir almenna notendur sem eru flestir blindir og sjónskertir og hefur sú framleiðsla reyndar legið niðri frá miðju ári.

Lesblindir einstaklingar falla að mörgu leyti milli þils og veggjar í þjóðfélaginu. Þeir njóta ekki sambærilegrar þjónustu og fatlaðir einstaklingar. Þeir fá engin hjálpartæki, svo sem tölvur, segulbandstæki o.fl. Hins vegar krefst þjóðfélagið þess að allir séu læsir og þeir sem ekki eru læsir eru því dæmdir til undanhalds nema til komi sérstök aðstoð. Því verður að viðurkenna lesblindu sem fötlun í upplýsingasamfélagi nútímans.

Hyggst ráðherrann beita sér fyrir lausn á þessum vanda í bráð og lengd þannig að lestregu fólki, sem stundar nám á framhaldsskólastigi, sé veitt þjónusta í skólunum með lestrarþjálfun og sérkennslu og að til komi sérstök fjárframlög til hljóðritunar námsefnis? Telur ráðherrann brýnt að leysa fjárhagsvanda Blindrabókasafns? Hefur ráðuneytið markað sér stefnu um stuðning við þessa nemendur?