Stuðningur við nemendur sem eiga í lestrarörðugleikum

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 14:38:13 (1432)

1995-11-29 14:38:13# 120. lþ. 43.6 fundur 181. mál: #A stuðningur við nemendur sem eiga í lestrarörðugleikum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[14:38]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda var stefna í málinu mótuð með setningu framhaldsskólalaganna frá 1988 þar sem segir að allir nemendur skulu geta stundað nám í samræmi við þarfir og óskir. Í síðustu mgr. 30. gr. reglugerðar nr. 23/1991, um framhaldsskóla, er kveðið á um að hlutverk sérkennara í framhaldsskólum sé að annast kennslu og ráðgjöf nemenda vegna sértækra lestrar- og skriftarörðugleika. Þetta ákvæði hefur þó ekki komist til framkvæmda nema að mjög takmörkuðu leyti.

Iðnskólinn í Reykjavík er sá framhaldsskóli sem hvað skipulegast hefur gengið til verks í þjónustu við nemendur sem eiga í lestrarörðugleikum. Lestrarmiðstöð Kennaraháskóla Íslands hefur m.a. það hlutverk að meta lestrarörðugleika og veita ráðgjöf í samræmi við niðurstöður greininga. Lestrarmiðstöð Kennaraháskólans hefur í samvinnu við framhaldsskóla staðið fyrir námskeiðum fyrir nemendur með lestrarörðugleika, kennara þeirra og foreldra. Blindrabókasafn Íslands lánar nemendum með lestrarörðugleika í framhaldsskólum námsefni á hljómböndum. Ljóst er að taka verður á málum varðandi safnið með hliðsjón af aukinni þörf fyrir þjónustu þess og hef ég rætt það mál við forustumenn Blindrabókasafnsins og það mál er í sérstakri athugun hvernig við skuli brugðist.

Fjárveiting til sérkennslu í framhaldsskólum hefur sett aðstoð við nemendur í þessum skólum þröngar skorður. Á fjárlögum í ár eru 32 millj. ætlaðar til sérkennslu í framhaldsskólum landsins. Fatlaðir nemendur hafa verið látnir ganga fyrir nemendum með námserfiðleika, þar með nemendum með lestrarörðugleika. Ástæðan er fyrst og fremst sú að ætla má að skólarnir sjálfir geti frekar af eigin fé sinnt nemendum með námserfiðleika en nemendum með fötlun.

Unnið er að því á vegum menntmrn. að undirbúa ýmislegt sem ætti að létta nemendum námið sem eiga í lestrarörðugleikum. Til athugunar er hve miklu fjármagni þarf að bæta við fjárveitingar framhaldsskólanna svo að þeir verði sjálfbjarga með kennara og tæki til kennslu nemenda með lestrarörðugleika. Kanna þarf um hve marga nemendur er að ræða í framhaldsskólum sem eiga við þessa örðugleika að stríða og hvernig aðstoð þeir hafa fengið í grunnskólanum. Í undirbúningi er átak í kennslu fullorðinna með lestrarörðugleika. Athugun er hafin á því hvernig efla megi Lestrarmiðstöð Kennaraháskóla Íslands sem greiningar- og ráðgjafarmiðstöð vegna nemenda með lestrarörðugleika svo hún geti betur sinnt nemendum á landinu öllu. Unnið er að útgáfu bæklings sem ætlaður er almenningi þar sem fram koma helstu niðurstöður úr rannsóknum á læsi og hvatning til heimila um mikilvægi lesturs og til þess að fylgjast með lestrarkennslu í skólum. Þar að auki tekur menntmrn. þátt í ýmsu alþjóðlegu starfi sem lýtur að því að bregðast við þeim vanda sem vikið er að í spurningu hv. þm.