Menningarborg Evrópu

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 14:50:05 (1437)

1995-11-29 14:50:05# 120. lþ. 43.7 fundur 185. mál: #A menningarborg Evrópu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[14:50]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Með bréfi borgarstjórans í Reykjavík 20. febr. sl. til þáv. menntmrh. var óskað eftir því að ríkisstjórnin féllist á þá ósk borgaryfirvalda að leita eftir útnefningu ráðherraráðs Evrópusambandsins á að Reykjavíkurborg yrði menningarborg Evrópu árið 2000. Málið var lagt fyrir ríkisstjórnina 14. mars sl. og ríkisstjórnin samþykkti þá tillögu menntmrh. að fallast á að senda umsókn til Evrópusambandsins um Reykjavík sem menningarborg Evrópu árið 2000. Þá var samþykkt að jafnframt því að borgarstjóra yrði tilkynnt þessi ákvörðun yrði tekið fram að í samþykkt ríkisstjórnarinnar fælust ekki fjárhagslegar skuldbindingar fyrir ríkissjóð. Þetta var borgarstjóra tilkynnt með bréfi menntmrn. 20. mars sl.

Málið var síðan undirbúið af nefnd á vegum Reykjavíkurborgar með fulltrúm frá utanrmn. og menntmrn. Að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar 19. júní sl. var utanrrn. falið að koma umsókn Reykjavíkur á framfæri við hlutaðeigandi yfirvöld hjá Evrópusambandinu. Nú liggur fyrir eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda að Reykjavíkurborg hefur hlotið útnefningu sem menningarborg Evrópu árið 2000 ásamt átta öðrum borgum. Er ljóst að Evrópusambandið hefur tekið upp nýjar starfsaðferðir við úthlutun á þessum titli til borga og það eru alls níu Evrópuborgir sem geta árið 2000 skartað sig með því að vera menningarborg Evrópu samkvæmt ákvörðun Evrópusambandsins.

Eftir að þessi niðurstaða fékkst hefur málið ekki komið á ný til kasta ríkisstjórnarinnar en eins og að undirbúningi hefur verið staðið mun hann verða eðlilega áfram fyrst og fremst á vegum Reykjavíkurborgar. Að frumkvæði hennar mun ríkisvaldið síðan bregðast við þeim málum sem kunna að koma upp og eftir því sem óskað verður og taka afstöðu til einstakra atriða í ljósi þess sem ákveðið var þegar haldið var úr höfn. Á þessu stigi er því ekki unnt að segja hver hlutur ríkisins af málinu verður eða mun verða en það er ljóst sem kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda að listahátíð fer fram árið 2000. Ríkisvaldið á aðild að þeirri hátíð og einnig er þegar hafinn undirbúningur af hálfu stjórnvalda að hátíð vegna kristnitökuafmælisins árið 2000. Ríkið mun því sjálfkrafa vegna slíkra hátíðahalda leggja sig fram um ýmislegt sem mætti flokka undir það hlutverk Reykjavíkurborgar að vera menningarborg Evrópu árið 2000.

Ég vil einnig láta þess getið að viðræður hafa farið fram um væntanlegan Listaháskóla Íslands. Stofnað hefur verið félag um Listaháskóla Íslands og í bréfi sem það hefur ritað Reykjavíkurborg er látin í ljós sú von að Reykjavíkurborg líti á það sem hluta af undirbúningi fyrir árið 2000 að Listaháskóli Íslands verði orðinn að veruleika. Ég tek undir það sjónarmið því að ég held að þar sé líka um sameiginlegt verkefni ríkis og Reykjavíkurborgar að ræða sem stuðli mjög að því að efla lista- og menningarlíf í landi okkar.

Þetta eru þau svör sem ég get gefið á þessari stundu. Við eigum eftir að fá viðbrögð Reykjavíkurborgar og heyra hugmyndir hennar en stefna ríkisstjórnarinnar var mörkuð þegar í mars sl. Síðan hafa mál gengið fram eins og ég hef hér lýst en engar endanlegar ákvarðanir hafa verið teknar af hálfu ríkisvaldsins í þessu máli frekar en ég hef lýst.