Menningarborg Evrópu

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 14:54:15 (1438)

1995-11-29 14:54:15# 120. lþ. 43.7 fundur 185. mál: #A menningarborg Evrópu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[14:54]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli. Okkur finnst kannski að það sé langt til aldamóta en það eru ekki nema örfá ár og tíminn er fljótur að líða. Það er augljóst af því sem hefur komið fram að þarna er um mjög viðamikið verkefni að ræða sem snertir ekki aðeins borgina heldur ríkisvaldið líka.

Það verður mikið um að vera á árinu 2000 og auðvitað skiptir mjög miklu máli að þarna sé um samhæfðar aðgerðir að ræða og það rekist ekki hvað á annað ef þetta á allt að takast vel.

Það hefur komið fram í fréttum frá Kaupmannahöfn hve gífurlegt verkefni það er að undirbúa næsta ár þegar Kaupmannahöfn verður menningarborg Evrópu. Mér skilst að Reykjavíkurborg verði meðal fleiri borga sem fá þennan titil árið 2000 en til þess að vel takist til verða menn að skipuleggja vel og gefa sér tíma. Við nokkrir þingmenn Reykjavíkur áttum þess kost að hitta í gær fulltrúa ferðamála í borginni sem er m.a. að huga að stefnumörkun sem snertir þetta mál vegna þess að Reykjavík verður að vera reiðubúin til þess að taka við því fólki sem hingað kemur og geta veitt aðstöðu til að allir þeir menningarviðburðir sem fyrirhugaðir eru geti átt sér stað. Af því tilefni, hæstv. forseti, minni ég á það að við búum enn þá svo illa í borginni að ekki er til einn einasti tónlistarsalur sem er byggður og hannaður sem slíkur. Ég vildi óska þess að við gætum bætt úr því fyrir árið 2000.