Menningarborg Evrópu

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 14:57:40 (1440)

1995-11-29 14:57:40# 120. lþ. 43.7 fundur 185. mál: #A menningarborg Evrópu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[14:57]

Mörður Árnason:

Herra forseti. Ég tel að þetta sé hið þarfasta mál að ræða. Ég er þó ekki að öllu leyti ánægður með svör hæstv. ráðherra. Auðvitað hefur hann ekki fengið hið formlega erindi enn en með því að vinna með Reykjavíkurborg að umsókninni hefur ríkisstjórnin skuldbundið sig siðferðilega til þess að taka þátt í málinu.

Ég tek eftir því að hann leggur mikla áherslu á þann eðlilega fyrirvara að sjálfur stuðningur ríkisvaldsins við umsókn Reykjavíkurborgar bindi það ekki fjárhagslega. Hins vegar hlýtur það að verða svo að þegar fram í sækir taki ríkisvaldið þátt í þessum málum með Reykjavíkurborg en ekki bara á þann hátt sem mér fannst hæstv. ráðherra ýja að að menningarborgarútnefningin yrði tilefni til þess að koma verkefnum og fjárbyrði yfir á Reykjavík, t.d. við stofnun listaháskóla. Ég vara hæstv. ráðherra við því þó að hann hafi gerst nokkuð umfangsmikill í stjórnarandstöðu sinni við núverandi borgarstjórnarmeirihluta í Reykjavík, eðlilega og skiljanlega, einkum í ljósi þess hvernig félagar hans í þeirri sömu stjórnarandstöðu hafa staðið sig, að láta þá afstöðu sína hafa áhrif á framgöngu þess máls sem verður að vera þjóðarinnar allrar. Þegar býður þjóðarsómi þá á Bretland eina sál, var einu sinni ort.