Málefni glasafrjóvgunardeildar

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 15:06:00 (1444)

1995-11-29 15:06:00# 120. lþ. 43.8 fundur 142. mál: #A málefni glasafrjóvgunardeildar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[15:06]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson spyr fjögurra spurninga. Við fyrstu spurningunni er þetta svar:

Ekki hefur verið tekin nein endanleg ákvörðun um hækkun gjalda vegna sjúklinga sem leita glasafrjóvgunar. Samkvæmt tillögu forstöðulæknis kvennadeildar er lagt til eftirfarandi:

Barnlaus hjón eða par greiðir fyrir fyrstu meðferð 115 þús. kr. Í annarri til fjórðu meðferð, ef þörf er á endurtekningu, 65--90 þús. kr. eftir því hvort notaðir eru frystir fósturvísar eða ekki. Við erum að tala um 5--10% hækkun. Í þessum lið er því miðað við að ríkið taki áfram þátt a.m.k. í 50% af beinum kostnði við aðgerðir í þessum flokki. Hjón eða par sem á barn saman greiðir fyrir fyrstu meðferð 205 þús. kr. og framhaldsmeðferð 170 þús. kr.

Við annarri spurningu er þetta svar: Upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir að deildin yrði staðsett á Fæðingarheimili Reykjavíkur. Hins vegar er nú athugun á Ríkisspítölum á hagkvæmni þess að deildin yrði staðsett inni á kvennadeild. Ef það er mögulegt sparast fjármunir því að samnýting húsnæðis, tækja og mannafla eykst. Þá þarf enn fremur ekki að flytja alla deildina. Það skal sérstaklega tekið fram að framlag ársins 1995 til framkvæmda, 25 millj. kr., hefur þegar verið greitt Ríkisspítölum og heilbrrh. treystir framkvæmdastjórn þeirra fullkomlega til að standa við fyrri áætlanir um að opna deildina í maí nk. í stærra húsnæði svo sem áformað hafði verið áður. Ekkert hafði komið fram frá framkvæmdastjórn Ríkisspítalanna annað en að þetta verði hægt eins og áður hafði verið áætlað og því munu möguleikar til aðgerða aukast auk þess sem möguleiki á smásjárfrjóvgun og fósturvísafrystingu opnast. Þetta kom fram á aðalfundi Ríkisspítalanna og var ítrekað þar.

Við þriðju spurningu er eftirfarandi svar: Fyrsta fjárlagafrv. sem ég tek þátt í að semja og leggja fram núna fyrir árið 1996 tekur fullt mið af upphaflegum áformum um eflingu glasafrjóvgunardeildar og er í fullu samræmi við fyrrnefnda þáltill. Framlag til stofnkostnaðar í heild verður því kringum 46,5 millj. kr. auk þess sem fyrir árið 1996 verður rekstrarframlag til deildarinnar hækkað um 4,3 millj. kr. samkvæmt frv. til fjárlaga.

Við fjórðu spurningu er eftirfarandi svar: Það eru engin áform um nýjungar í þeim efnum í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar.

Ég þakka fyrirspyrjanda áhuga hans á þessu mikilvæga máli sem snertir hagsmuni stórs hóps og ég veit að hann verður mér innan handar við að vinna þessu máli brautargengi í gegnum þingið á næstu vikum. Jafnframt bendi ég á þá miklu mismunun, sem er ekki minnst á í fyrirspurninni, sem er ferðakostnaður þeirra sem búa utan suðvesturhornsins. Ferðir við hverja meðferð geta orðið allt að 5--6 og heildarkostnaður viðkomandi er því nánast tvöfaldur. Það er verið að skoða á möguleika nú hvort Tryggingastofnun geti ekki komið til móts við þessa aðila sem búa við svo háa ferðakostnað.

Ég vil segja að lokum vegna fyrirspurnar hv. þm. að áhugi minn á glasafrjóvgunardeild Landspítalans er sá sami og hann hefur ávallt verið.