Málefni glasafrjóvgunardeildar

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 15:12:16 (1446)

1995-11-29 15:12:16# 120. lþ. 43.8 fundur 142. mál: #A málefni glasafrjóvgunardeildar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[15:12]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég átti gott samstarf á síðasta kjörtímabili við núv. hæstv. heilbrrh. einmitt við að efla glasafrjóvgunardeildina. Saman áttum við okkar ósmáa þátt í því að útvegað var fjármagn til þess að efla starfsemi deildarinnar. Ég verð að segja það, herra forseti, að það stappar ósvífni næst þegar hæstv. heilbrrh. kemur núna, ber það á borð fyrir okkur og segir að vilji hennar standi ótvírætt til þess að efla deildina eins og áður. Verkin tala. Peningarnir sem síðasta ríkisstjórn útvegaði eru ónýttir en hún treystir því að fyrirhuguð áform muni ná fram að ganga. Nákvæmlega núna á þessum haustdögum átti deildin að vera stækkuð. Á meðan eldast þessir foreldrar úr barneign. Eigið svar hennar við fyrirspurn frá mér hefur sýnt að á síðustu fjórum árum hefur meðalaldur þeirra sem fara í fyrstu meðferð aukist um tvö ár.

Herra forseti. Að lokum ein mórölsk spurning. Við sem höfum farið í gegnum þessa þjónustu og þurfum á henni að halda erum eini sjúklingahópurinn sem borgar nánast 100% fyrir þjónustuna. Er móralskt hægt að nota ekki þá peninga, sem við erum þó að borga til þess að byggja upp deildina, heldur nota þá til þess að skera niður önnur framlög til kvensjúkdómadeildar Landspítalans eins og kemur fram í fjárlagafrv.? Mér finnst það hneyksli.